„Þetta er búið að vera algjört ævintýri og langt umfram væntingar. Það hefur verið gríðarlega gaman að fá að fylgjast með Jóhönnu Leu í þessum aðstæðum í keppni við þær allra bestu á mjög krefjandi og erfiðum velli,“ segir Lúðvík Bergvinsson sem hefur verið í margskonar hlutverkum á Opna breska áhugamannamótinu.
„Ég er aðstoðarmaður og kylfuberi á daginn en tek síðan við föðurhlutverkinu þegar Jóhanna Lea er ekki á golfvellinum,“ segir Lúðvík í léttum tón.
Eins og áður segir er Kilmarnock, Barassie völlurinn í Skotlandi afar krefjandi en völlurinn er 6.100 metra langur en til samanburðar er Leirdalsvöllur hjá GKG 5.869 metrar af öftustu teigum. Lúðvík segir að Jóhanna Lea hafi haldið ró sinni allt mótið og andlegi þátturinn er stærsta áskorunin við slíkar aðstæður.
„Jóhanna Lea er á meðal yngstu keppenda hér í þessu móti. Hún hefur því þurft að slá mörg krefjandi högg – sérstaklega í innáhöggum á löngum par 4 holum. Þar hefur hún þurft að slá oft með blendingskylfingu á meðan keppinautar hennar eru að nota önnnur og einfaldari verkfæri. Hún hefur púttað mjög vel og lærir alltaf betur og betur á völlinn eftir því sem hún spilar fleiri hringi.“
Keppendur sem fara langt í holukeppnishlutanum leika gríðarlega margar holur á þessu móti. Jóhanna Lea lék 18 holur á æfingahring s.l. sunnudag, hún lék síðan 18 holur mánudag og þriðjudag – samtals 54 holur. Í holukeppninni hefur hún leikið alls 87 holur. Jóhanna Lea hefur því leikið alls 141 holu á mótinu til þessa og í úrslitaleiknum eru leiknar 36 holur.
„Það var þreyta komin upp hjá keppendum í undanúrslitaleikjunum. Andlegi þátturinn og úthaldið skiptir því miklu máli við slíkar aðstæður. Mér sýnist að við séum að ganga um 20 km. á dag þegar 36 holur eru leiknar. Keppendur mæta á golfvöllinn snemma að morgni og yfirgefa svæðið þegar sólin er að setjast – þetta eru langir dagar og mikilvægt að borða rétt og á réttum tímum á meðan leik stendur. Og ná góðri hvíld á milli keppnisdaga,“ segir Lúðvík.
Hann bætir því við að Jóhanna Lea hafi haldið ró sinni alla keppnisdagana og dóttir hans hefur komið föður sínum á óvart í umhverfi þar sem að spennustigið er hátt.
„Ég er eiginlega alveg gáttaður á því hversu róleg hún er. Í leikjunum er hún afar einbeitt og lætur ekkert koma sér úr jafnvægi. Hún ætlar að halda áfram að gera sömu hlutina sem hafa svo sannarlega gengið vel fram til þessa. Það er mikið afrek að komast í undanúrslitaleik á þessu sterka móti en ég held að hún sé ekkert að velta því fyrir sér. Það er einnig gleðilegt að allir þrír íslensku keppendurnir náðu að setja mark sitt á keppnina – og komust þær allar í hóp þeirra sem léku í holukeppninni. Það hefur aldrei gerst áður og er gott fyrir íslenskt golf,“ segir Lúðvík.