Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr GK, keppir á LET Evrópumótaröðinni á móti sem fram fer á Rosendaelsche golfvellinum í Hollandi. Mótið heitir Big Green Egg Open.
Mótið í Hollandi er fjórða mótið hjá Guðrúnu Brá á þessu tímabili. Hún náði sínum besta árangri á LET Evrópumótaröðinni um s.l. helgi þar sem hún endaði í 33. sæti á 4 höggum undir pari samtals í Tékklandi .
Smelltu hér fyrir rástíma, skor og úrslit.
Á nýuppfærðum listum hefur Íslandsmeistari síðustu þriggja ára farið upp um 51 sæti á heimslistanum og 21 sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar.
Guðrún Brá er sem stendur í sæti nr. 871 á heimslistanum og fer upp um 51 sæti á milli vikna. Hún nálgast besta árangur sinn á heimslistanum en Guðrún Brá hefur hæst farið í sæti nr. 790. Á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar fer Guðrún Brá upp um 21 sæti en hún er í sæti nr. 76 en var áður í sæti nr. 97.