Kynningarefni:
Það er margt sem er heillandi við Tenerife og þá sérstaklega hið milda veðurfar sem ríkir á þessum slóðum. Hið eilífa vor er góð lýsing á veðurfarinu á þessu svæði og er þá átt við vorhita sem á Íslandi væri kallað besta sumar allra tíma. Meðalhitinn yfir vetrarmánuðina er 18-24 gráður og 24-28 gráður á sumrin.
Fyrir kylfinga er Tenerife því frábær valkostur og þar skorar Golf del Sur golfsvæðið hátt bæði hvað varðar golf og gæði á gistingu.
Golf del Sur völlurinn opnaði árið 1987 og frá þeim tíma hafa mörg atvinnumót farið fram á þessum velli. Gæðin eru til staðar og völlurinn er einn af bestu golfvöllum Tenerife. Bermudagras er á flötunum og umhirða vallar er í hæsta gæðaflokki.
Það tekur ekki nema um 10 mínútur að aka frá flugvellinum á Golf del Sur sem er mikill kostur eftir flugið frá Íslandi.
Pepe Gancedo hannaði Golf del Sur í upphafi og árið 2005 kom Manuel Piñero að verkefninu og endurhannaði hluta vallarins. Miklar andstæður eru helsta einkenni vallarins. Svartur vikursandur ræður ríkjum í glompum, mikið landslag og frábært útsýni er víða á vellinum.
Golfsvæðið er 27 holur með mismunandi einkennum en vegna endurbóta einni 9 holu lykjunni (Sur) verða eingöngu Norður – og Links lykkjurnar í notkun haustið 2021 á einum 18 holu velli. Golf del Sur hentar vel fyrir kylfinga á öllum getustigum – byrjendum sem lengra komnum. Brautirnar eru breiðar, flatirnar eru stórar og allir ættu að njóta sín á þessum skemmtilega velli.
Eins og áður segir hafa margir af bestu kylfingum veraldar keppt á Golf del Sur.
Á árunum 1989-1994 var golfsvæðið með reglulegu gestgjafi móta á Evrópumótaröð karla – sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Þekktir kappar hafa landað þar sigri og má þar nefna José Maria Olazábal, David Gilford og Mark James. Árið 1995 fór fram áhugavert „einvígi“ á Golf del Sur þar sem að Suður-Afríkumaðurinn Ernie Els og Bandaríkjamaðurinn Phil Mickelson áttust við. Evrópumótaröð kvenna, LET, hefur einnig verið með mótaröðina á Golf del Sur.
Vinalegur veitingastaður við klúbbhúsið
Í lok hrings er gott að fá sér hressingu á vinalegum veitingastað við klúbbhúsið – þar sem að fjölbreytt úrval er í mat og drykk. Frá klúbbhúsinu er stórkostlegt útsýni yfir hluta af vellinum og út á glitrandi hafið. Öll aðstaða í og við klúbbhúsið er fyrsta flokks. Búningsherbergi, æfingasvæði fyrir öll högg, gott úrval af golfvörum í móttöku klúbbhússins. Einnig er gott úrval í golfverslun við klúbbhúsið þar sem hægt er að fá ýmsa þjónustu – þar á meðal kylfuviðgerðir.
VITAgolf er með golfferðir frá 1 upp í 6 víku golfferðir á Golf del Sur í haust og vetur til sölu – smelltu hér.
Boðið er upp á snyrtilega íbúðagistingu á Royal Tenerife Country Club. Það tekur ekki nema 2-3 mínútur að ganga frá gistisvæðinu og inn á golfsvæðið. Á Royal Tenerife Country Club er öll helsta þjónusta til staðar. Sundlaug með fínu útisvæði og sundlaugarbar. Á Royal Tenerife Country Club er einnig veitinga – og kaffihús og matvöruverslun með helstu nauðsynjar. Það er einnig áhugaverður verslunar – veitingahúsakjarni skammt frá Royal Tenerife Country Club. Þar er fjölbreytt úrval af veitingastöðum í rólegu umhverfi í göngufæri frá Royal Tenerife Country Club.
Teide eldfjallið er tignarlegt
Hér hefur áður verið minnst á frábært útsýni á Golf del Sur án þess að draga fram hinn stórkostlega tind Teide fjallsins sem gnæfir yfir golfvellinum og allir eyjunni. Hæsti tindur eldfjallsins er í 3.700 metra hæð yfir sjávarmáli. Fjallið Teide skorar hátt í samanburðartölfræði veraldar þegar kemur að stærstu og hæstu eldfjöllum. Það er í þriðja sæti yfir hæstu eldfjöll heims og er jafnframt hæsti tindur Spánar.
Tenerife stærsta eyjan í Kanaríeyjaklasanum
Kanaríeyjaklasinn samanstendur átta eyjum og er Tenerife stærst þeirra. Íbúar á Tenerife eru rétt tæplega ein milljón. Í venjulegu árferði heimsækja um fimm milljón ferðamenn Tenerife – og er Tenerife ein af mikilvægustu stoðunum í ferðmannaiðnaði Spánverja. Landfræðilega er Tenerife á sömu breiddargráðu og Flórídafylki í Bandaríkjunum og Sahara eyðimörkin er skammt undan í austurátt frá eyjunni við strendur Afríku.