Bein útsending verður frá Íslandsmótinu í golfi sem fram fer á Jaðarsvelli 5.-8. ágúst 2021.
Sýnt verður frá síðustu tveimur keppnisdögunum á RÚV og hefst útsending kl. 15 laugardaginn 7. ágúst og kl. 14.30 á lokadeginum sunnudaginn 8. ágúst.
Þetta er í 24. sinn sem sýnt er frá Íslandsmótinu í golfi í beinni útsendingu í sjónvarpi. Fyrsta útsendingin var árið 1998 á Hólmsvelli í Leiru.
Þetta verður í þréttánda sinn sem RÚV er með þessa útsendingu en fyrstu 11 árin var sýnt frá mótinu á SÝN og einu sinni var sýnt frá mótinu á Stöð 2 sport.
Samkvæmt bestu heimildum GSÍ er Íslandsmótið í golfi eina meistaramót áhugakylfinga sem sýnt er í beinni útsendingu á landsvísu. Útsendingin er því einsdæmi á heimsvísu.
Mikið er lagt í útsendinguna frá Íslandsmótinu í golfi á hverju ári. Um 7.000 metrar ef myndavélaköplum verða dregnir út á völlinn til að koma myndefninu til skila heim í stofu.
Um 30 manns koma að útsendingunni með einum eða öðrum hætti. Alls verða 14 mannaðar myndavélar, þar af 7 sem verða færðar á milli brauta eftir því sem líður á útsendinguna. Tvær myndavélar fylgja efstu keppendunum. Þar að auki verða 5 ómannaðar myndavélar á Jaðarsvelli. Útsendingin í ár verður sú fyrsta þar sem að myndavélar geta náð höggum keppenda alls staðar á brautum 10 til 18.
Hljóðblöndun verður að stórum hluta sjálfvirk þar sem hugbúnaður í tölvu sjá til þess að réttur hljóðnemi verður notaður miðað við hvaða myndavél er í loftinu hverju sinni
Áhorfendur ættu því ekki að missa af höggi þegar spennan er sem mest á lokaholunum á Jaðarsvelli.
Saga beinna útsendinga frá Íslandsmótinu í golfi
Fjöldi | Ár | Völlur | Klúbbur | Útsending |
1 | 1998 | Hólmsvöllur í Leiru | GS | SÝN |
2 | 1999 | Hvaleyrarvöllur | GK | SÝN |
3 | 2000 | Jaðarsvöllur | GA | SÝN |
4 | 2001 | Grafarholtsvöllur | GR | SÝN |
5 | 2002 | Strandarvöllur | GHR | SÝN |
6 | 2003 | Vestmannaeyjavöllur | GV | SÝN |
7 | 2004 | Garðavöllur | GL | SÝN |
8 | 2005 | Hólmsvöllur | GS | SÝN |
9 | 2006 | Urriðavöllur | GO | SÝN |
10 | 2007 | Hvaleyrarvöllur | GK | SÝN |
11 | 2008 | Vestmannaeyjavöllur | GV | SÝN |
12 | 2009 | Grafarholtsvöllur | GR | RÚV |
13 | 2010 | Kiðjabergsvöllur | GKB | RÚV |
14 | 2011 | Hólmsvöllur í Leiru | GS | RÚV |
15 | 2012 | Strandarvöllur | GHR | Stöð 2 sport |
16 | 2013 | Korpúlfsstaðavöllur | GR | RÚV |
17 | 2014 | Leirdalsvöllur | GKG | RÚV |
18 | 2015 | Garðavöllur | GL | RÚV |
19 | 2016 | Jaðarsvöllur | GA | RÚV |
20 | 2017 | Hvaleyrarvöllur | GK | RÚV |
21 | 2018 | Vestmannaeyjavöllur | GV | RÚV |
22 | 2019 | Grafarholtsvöllur | GR | RÚV |
23 | 2020 | Hlíðavöllur | GM | RÚV |
24 | 2021 | Jaðarsvöllur | GA | RÚV |