Guðrún Brá Björgvinsdóttir, atvinnukylfingur úr Keili í Hafnarfirði, keppir í þessari viku á Opna svissneska meistaramótinu sem fram fer á Holzhäusern vellinum í Sviss. Mótið er hluti af LET Evrópumótaröð kvenna – sem er í efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.
Fyrsti keppnisdagurinn er fimmtudagurinn 9. september og verða leiknar 54 holur á þremur keppnisdögum.
Guðrún Brá náði sínum þriðja besta árangri á LET Evrópumótaröðinni á Creekhouse Ladies Open mótinu sem lauk í gær á Åhus Ostra vellinum í Kristianstad í Svíþjóð.
Þar lék hún á 7 höggum yfir pari vallar samtals (73-73-73-76) sem skilaði henni í 24. sæti.
Mótið í Sviss í þessari vikur verður 14. mótið hjá Guðrúnu Brá á tímabilinu. Besti árangur hennar er 12. sæti á þessu tímabili og sá næstbesti er 13. sæti.
Guðrún Brá var í 84. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar en hún fór upp um 10 sæti eftir mótið í Svíþjóð og er núna í 74. sæti á stigalistanum. Til samanburðar þá endaði Guðrún Brá í sæti nr. 127 á stigalistanum á sínu fyrsta keppnistímabili á LET Evrópumótaröðinni í fyrra.
Það eru 6 mót eftir á keppnistímabilinu á LET Evrópumótaröðinni.