Fjórir íslenskir atvinnukylfingar taka þátt á Hopps Open de Provence mótinu sem fram fer á Golf International de Pont Royal vellinum í Mallemort Frakklandi. Mótið fer fram 16.-19. september og er hluti af næst sterkustu atvinnumótaröð í Evrópu, ChallengeTour.
Íslensku kylfingarnir eru Andri Þór Björnsson (GR), Bjarki Pétursson (GKG), Guðmundur Ágúst Kristjánsson (GR) og Haraldur Franklín Magnús (GR).
Nánari upplýsingar um mótið er að finna hér:
Andri Þór Björnsson, GR, náði sínum besta árangri á Áskorendamótaröðinni á Big Green Egg German Challenge mótinu sem fram fór á Wittelsbacher vellinum í Þýskalandi í síðustu viku.
Þar endaði Andri Þór í 32. sæti á 1 höggi undir pari vallar samtals. Andri Þór var mjög stöðugur og lék hann hringina fjóra á (71-71-71-70).
Bjarki Pétursson, GKG og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, náðu ekki að komast í gegnum niðurskurðinn á þessu móti. Haraldur Franklín tók ekki þátt.
Haraldur Franklín hefur leikið á fjórtán mótum á Áskorendamótaröðinni á þessu tímabili. Besti árangur hans er 2. sætið og Haraldur Franklín hefur komist í gegnum niðurskurðinn á fimm mótum. Haraldur Franklín er í 42. sæti stigalista Áskorendamótaraðarinnar. Nánar um árangur Haraldar – smelltu hér.
Bjarki hefur leikið á sjö mótum á þessu tímabili. Hann hefur náð í gegnum niðurskurðinn á einu móti og besti árangur hans er 66. sæti. Bjarki er í sæti nr. 121 á stigalista Áskorendamótaraðarinnar. Nánar um árangur Bjarka – smelltu hér.
Andri hefur leikið á sjö mótum á þessu tímabili. Þetta var fyrsta mótið sem Andri Þór kemst í gegnum niðurskurðinn. Andri Þór er í sæti nr. 141 á stigalista Áskorendamótaraðarinnar. Nánar um árangur Andra – smelltu hér.
Guðmundur Ágúst hefur leikið á 14 mótum á tímabilinu. Hans besti árangur er 8. sæti en hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn á 9 mótum. Hann er í 75. sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar. Nánar um árangur Guðmundar – smelltu hér.
Að miklu að keppa:
Áskorendamótaröðin var sett á laggirnar árið 1989 þar sem að mikil eftirspurn var eftir því að komast inn á sjálfa Evrópumótaröðina. Margir þekktir atvinnukylfingar hafa nýtt tækifærið á Áskorendamótaröðinni til að bæta sig í harðri keppni um sæti á Evrópumótaröðinni. Má þar nefna að Thomas Bjørn (1995), Justin Rose (1999), Ian Poulter (1999), Henrik Stenson (2000), Louis Oosthuizen (2003), Tommy Fleetwood (2011) og Brooks Koepka (2013) komust allir inn á Evrópumótaröðina með góðum árangri á Áskorendamótaröðinni.
Í lok tímabilsins fer fram lokamót á Mallorca þar sem að 45 efstu á stigalistanum taka þátt. Eftir lokamótið fá 20 efstu á stigalistanum keppnisrétt á Evrópumótaröðinni. Lokamótið fer fram á Golf & Country Club á Balearic við Mallorca en alls eru 26 mót á keppnisdagatalinu á Áskorendamótaröðinni og er leikið í 16 mismunandi löndum.