Golfsamband Íslands hefur samþykkt tillögu mótanefndar GSÍ þess efnis að Íslandsmótið í golfi árið 2023 fari fram á Urriðavelli hjá Golfklúbbnum Oddi.
Golfsamband Íslands er framkvæmdaraðili Íslandsmótsins í golfi – í samvinnu við þá golfklúbba þar sem að mótið fer fram hverju sinni.
Golfklúbburinn Oddur fagnar 30 ára afmæli árið 2023 og er gert ráð fyrir að mótið fari fram dagana 10.-13. ágúst 2023.
Íslandsmótið í golfi fór fram á Urriðavelli árið 2006 og var það jafnframt í fyrsta sinn sem keppt var um stærstu titla golfíþróttarinnar á Urriðavelli. Helena Árnadóttir, GR og Sigmundur Einar Másson, GKG fögnuðu Íslandsmeistaratitlunum á Urriðavelli árið 2006.
„Það er reglulega ánægjulegt að Íslandsmótið í golfi skuli vera á leið á Urriðavöll. Íslandsmótið var síðast haldið í Garðabænum árið 2006 og því löngu orðið tímabært að halda þangað á nýjan leik. Við erum afar þakklát félagsmönnum í Golfklúbbnum Oddi fyrir að bjóða bestu kylfingum landsins í heimsókn en Urriðavöllur er einn allra besti golfvöllur landsins, sem í þokkabót skartar magnaðri náttúrufegurð. Það verða sannkölluð forréttindi fyrir bestu kylfinga landsins að leiða saman hesta sína í Garðabænum,” segir Haukur Örn Birgisson forseti Golfsambands Íslands.
Viktor Elvar Viktorsson formaður mótanefndar GSÍ er einnig ánægður með bestu kylfingar landsins fái tækifæri til þess að keppa á einum besta velli landsins.
„Ég gekk völlinn í tvígang nú í haust og að venju var Urriðavöllur í frábæru ástandi. Á þessum velli getur allt gerst enda eru þar nokkuð margar holur sem geta breytt gangi mála í harðri keppni. Urriðavöllur er einstakur og mér líður alltaf eins og ég sé erlendis þegar ég kem á þetta svæði. Ég hlakka því gríðarlega mikið til að sjá okkar bestu kylfinga takast á við Urriðavöll árið 2023,“ segir Viktor Elvar.
Íslandsmótið 2022 fer fram í Vestmannaeyjum dagana 4.-7. ágúst.
Íslandsmótið 2022 verður það fimmta í röðinni í Vestmannaeyjum frá því að völlurinn var stækkaður í 18 holur en fyrir þann tíma hafði mótið farið fjórum sinnum fram á Vestmannaeyjavelli þegar völlurinn 9 holur.