Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, og Haraldur Franklín Magnús, GR léku báðir á Limpopo Championship sem fram fór á Euphoria golfsvæðinu í Limpopo í Suður-Afríku.
Mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni, Challengetour, sem er næst sterkasta mótaröð í karlaflokki í Evrópu. Mótið hófst 31. mars og lokadagurinn var í gær, 3. apríl.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit á Limpopo Championship.
Mateusz Gradecki frá Póllandi stóð uppi sem sigurvegari en hann lék á 19 höggum undir pari samtals.
Guðmundur Ágúst lék vel og endaði í 11. sæti á 10 höggum undir pari vallar. Þetta er besti árangur hans á tímabilinu. Hann fékk um 3.300 Evrur í verðlaunafé eða tæplega hálfa milljón kr. Þetta var þriðja mótið á tímabilinu hjá Guðmundi.
Haraldur Franklín var einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn á þessu móti en hann lék á 2 höggum undir pari samtals.
Guðmundur Ágúst fór upp um 46 sæti á stigalista Áskorendamótaraðarinnar – en hann er í sæti nr. 98 þessa stundina.
Haraldur Franklín er í 20. sæti á stigalistanum en hann hefur leikið á 5 mótum á tímabilinu.
Guðmundur Ágúst og Haraldur Franklín kepptu báðir í síðustu viku á SDC Open sem fór einnig fram í Limpopo en á Zebula golfsvæðinu.
Haraldur Franklín var einu höggi frá því að komast í gegnum niðurskurðinn á -3 samtals en Guðmundur Ágúst lék á -1 samtals og komst ekki í gegnum niðurskurðinn.
Í fyrra endaði Haraldur Franklín í 48. sæti á stigalistanum og var hársbreidd frá því að komast inn á lokamót Áskorendamótaraðarinnar þar sem að 45 efstu keppendurnir kepptu um 20 efstu sætin sem tryggðu þeim keppnisrétt á sjálfri Evrópumótaröðinni.
Hann lék á alls 19 mótum í fyrra og fékk alls 35,816 stig.
Aðeins tveir kylfingar frá Íslandi hafa komist inn á lokamót Áskorendamótaraðarinnar – Birgir Leifur Hafþórsson og Guðmundur Ágúst Kristjánsson.
Guðmundur Ágúst endaði í 46. sæti árið 2020.
Birgir Leifur endaði í 35. sæti árið 2017.
Áskorendamótaröðin var sett á laggirnar árið 1989. Frá þeim tíma hafa margir þekktir kylfingar nýtt sér mótaröðina sem stökkpall inn á Evrópumótaröðina – DP Tour. Þar má nefna Thomas Bjørn (1995), Justin Rose (1999), Ian Poulter (1999), Henrik Stenson (2000), Louis Oosthuizen (2003), Tommy Fleetwood (2011) og Brooks Koepka (2013).