/

Deildu:

Auglýsing

Vorið er kylfingum jafnan skemmtilegur árstími og mikil tilhlökkun í loftinu. Daginn tekur nú að lengja og enn bætir í farfuglana. Keppniskylfingarnir okkar taka þátt í hverju mótinu á fætur öðru á mótaröðum erlendis, þúsundir Íslendinga fagna þessa að geta leikið golf erlendis án Covid takmarkana og kylfingar flestir að gera sig klára í útiveru sumarsins. Þá er gaman að vera til. Og þó að undirrituð hafi notið þess að mæta í golfhermana í vetur þá var ljúft að finna gras undir fótum sér um helgina. Smá ójöfnur og brekkur í raunheimum til að láta reyna á sveifluna og æfingar vetrarins.

Takk fyrir öflugt vetrarstarf

Úr því að Lóan er komin, margæsirnar lentar frá Írlandi og krían væntanleg á næstu dögum þá er tímabært að þakka öllum öflugt vetrarstarf.

Góðri inniaðstöðu fjölgar stöðugt og enn bætir í fjölda þeirra kylfinga sem nýta sér inniaðstöðu um land allt. Fjöldi golfklúbba er því að auka við þjónustuframboðið allan ársins hring og þannig er golfið sannarlega að festa sig í sessi sem heilsárs íþrótt. Það var því í takt við þá þróun að halda fyrsta golfherma landsmótið hérlendis. Var það gert með veglegum hætti og beinni útsendingu í samstarfi við GKG. Ljóst er að fleiri tækifæri og hefðir munu skapast fyrir vetrar mótahaldi fram á við og lærðist margt í fyrstu atrennu.

Og það var margt annað á döfinni. Á vegum sambandsins má nefna reglulegar landsliðshelgar þar sem afreksstjóri bauð upp á fjölbreyttar æfingahelgar fyrir landsliðsfólkið okkar. Söfnun og stuðningur við Úkraínu stækkaði og styrkti golfsamfélög víða um heim. Golfhreyfingin á Íslandi lét ekki sitt eftir liggja og var veittur stuðningur í formi söfnunar og fjárframlags.

Að vetri fer gjarnan tími í undirbúning mótahalds og hefur keppnisdagskrá sumarsins á GSÍ mótaröðinni verið birt. Einnig var fundað reglulega í vetur til að undirbúa Evrópumót stúlkna landsliða sem haldið verður á Urriðaholtsvelli í sumar. Þá fór stjórn fyrir öflugri fundarröð um land allt á vormánuðum.  

Dýrmæt saga varðveitt

En þá að því merkilega afmælisári sem framundan er. Golfsamband Íslands var stofnað af framsýnum læknum sem kynntust íþróttinni í Svíþjóð, þeim Valtý Albertssyni og Gunnlaugi Einarssyni. Þeir hófu undirbúningar að stofnun fyrsta golfklúbb landsins og árið 1934 var Golfklúbbur Íslands stofnaður.  Fyrst var leikið í Laugardalnum, síðan í Öskjuhlíð áður en farið var í Grafarholtið.  Klúbburinn varð síðar það sem við þekkjum í dag sem GR eða Golfklúbbi Reykjavíkur. Gunnlaugur varð síðar fyrsti forseti Golfsambands Íslands er sambandið var stofnað þann 14. ágúst 1942.

GSÍ er því elsta sérsambandið innan vébanda ÍSÍ og munum við fagna 80 ára afmæli í ár með ýmsum hætti. Því nefni ég þetta sögubrot því það er dýrmætt að varðveita söguna. Á tímamótum sem þessum er gott að nota tækifærið til að kalla eftir dýrmætum munum eða koma sögulegum gögnum í var. Við viljum því hvetja golfklúbba landsins til að nýta tækifærið, fanga sögurnar og söguleg gögn sem dýrmætt er að varðveita. GSÍ leggur sitt á vogarskálarnar til að koma gömlum myndum í varanlega geymslu, fanga augnablikin sem sköpuð eru og að birta eða skrifa fréttir af golfhreyfingunni. Hikið aldrei við að vera í sambandi og saman sköpum við söguna.

Ég sendi ykkur hlýjar kveðjur með von um gott golfsumar og sætan fuglasöng á næstu dögum og vikum. 

Vonandi sláum við öll vel í gegn á næstunni..
Hulda Bjarnadóttir
Forseti GSÍ

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ