Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG og Haraldur Franklín Magnús, GR, tóku báðir þátt á lokaúrtökumótinu fyrir Opna mótið 2022, sem er eitt af risamótunum fjórum á þessu ári hjá atvinnukylfingum í karlaflokki.
Íslensku kylfingarnir léku á The Prince’s vellinum á Englandi en leikið var á fjórum keppnisvöllum á sama tíma, þriðjudaginn 28. júní.
Keppnisfyrirkomulagið var höggleikur og leiknar voru 36 holur á einum keppnisdegi – og fjórir keppendur af hverjum velli fyrir sig komust inn á sjálft risamótið sem fram fer á St. Andrews vellinum í Skotlandi um miðjan júlí.
Haraldur Franklín og Guðmundur Ágúst léku báðir á 144 höggum eða pari vallar og voru þeir tveimur höggum frá því að komast í bráðabana um eitt af fjórum efstu sætunum. Þeir enduðu því jafnir í 11. sæti.
Fimm kylfingar léku í bráðabana um 4. sætið og komst Englendingurinn Jack Floyd áfram með því að fá fugl á fyrstu holu bráðabanans.
Matthew Ford frá Englandi var efstur á -5 og jafnir í 2.-3. sæti á -3 voru þeir Jamie Rutherford frá Englandi og Írinn Ronan Mullarney.
Smelltu hér fyrir stöðuna á The Prince’s.
Smelltu hér fyrir stöðuna á lokaúrtökumótinu á völlunum fjórum:
Alls tóku 288 keppendur þátt á völlunum fjórum og komast 16 áfram, fjórir af hverjum velli.
Ef kylfingar voru jafnir í sætunum sem gáfu keppnisrétt á Opna mótinu þá var leikinn bráðabani um það hverjir komast áfram.
Haraldur Franklín hefur komist inn á Opna mótið með því að vera í einu af efstu sætunum á lokaúrtökumóti – en það gerði hann árið 2018 á þessum sama keppnisvelli, The Prince’s. Þar lék hann á tveimur höggum undir pari samtals og tryggði sér keppnisrétt á Opna mótinu á Carnoustie vellinum – fyrstur íslenskra karlkylfinga.
Lokaúrtökumótið fer fram á fjórum völlum á sama tíma:
Fairmont St. Andrews
Hollinwell
Prince’s
St. Annes old Links.