Bjarki Pétursson, GKG og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, hefja báðir leik á föstudaginn á lokaúrtökumótinu fyrir DP Evrópumótaröðina – sem er sterkasta atvinnumannamótaröðin í Evrópu.
Alls eru 153 keppendur sem komust inn á lokaúrtökumótið – um helmingur þeirra kemur í gegnum 2. stig úrtökumótsins líkt og þeir Bjarki og Guðmundur gerðu. Hinn helmingurinn kemur frá DP Evrópumótaröðinni, kylfingar sem náðu ekki að halda keppnisrétti sínum, á þessu tímabili.
Keppnisdagarnir eru alls 6 á lokaúrtökumótinu sem fram fer á Infinitum golfsvæðinu sem er rétt við bæinn Tarragona á Spáni og í næsta nágrenni við þekkt sumardvalarsvæði, Salou.
Fyrst eru leiknir fjórir hringir, tveir þeirra á Lakes vellinum og tveir á Hills vellinum. Eftir fjórða hringinn er niðurskurður þar sem að um helmingur keppenda fær tækfæri að leika á síðustu tveimur keppnisdögunum – en tveir síðustu hringirnir verða leiknir á Lakes vellinum. Að loknum sjötta keppnisdegi fá 25 efstu keppnisrétt á DP Evrópumótaröðinni
Þetta er í annað sinn sem Bjarki og Guðmundur Ágúst komast inn á lokaúrtökumótið – en þeir léku á því móti árið 2019.
Bjarki Pétursson leikur fyrsta hringinn á Lakes vellinum og Guðmundur Ágúst Kristjánsson leikur á Hills vellinum á 1. keppnisdeginum.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit á lokaúrtökumótinu.
3. keppnisdagur:
Guðmundur Ágúst er í 17.-23. sæti á -8 samtals eftir 54 holur. Hann lék á einu höggi yfir pari á þriðja hringnum þar sem hann fékk einn fugl og tvo skolla. Keppni er hálfnuð og ljóst að Guðmundur Ágúst kemst örugglega í gegnum niðurskurðinn fyrir tvo síðustu keppnisdagana. Hann er sem stendur á meðal 25 efstu og er í baráttunni að tryggja sér keppnisrétt á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Aðeins einn íslenskur kylfingu hefur náð að tryggja sér keppnisrétt á DP World Evrópumótaröðinni. Það gerði Birgir Leifur Hafþórsson í nóvember árið 2007.
Bjarki Pétursson lék á 1 höggi yfir pari á þriðja hringnum. Hann er í 154. sæti á +17 yfir pari og mun ekki ná í gegnum niðurskurðinn eftir fjórða keppnishringinn. Bjarki hefur nú þeger tryggt sér takmarkaðan keppnisrétt á Challenge Tour, Áskorendamótaröðinni, með því að komast í gegnum 2. stig úrtökumótsins og inn á lokaúrtökumótið.
2 keppnisdagur:
Guðmundur Ágúst lék mjög vel og er í 2. sæti þegar fjórir hringir eru eftir af mótinu. Hann er á -9 samtals (70-64). Hann fékk alls 8 fugla í dag og tapaði einu höggi á 16. Á fyrstu tveimur hringjunum hefur Guðmundur Ágúst fengið 10 fugla og tvo skolla. Hann er í 2. sæti fyrir þriðja daginn.
Bjarki lék á 82 höggum í dag eða 10 höggum yfir pari. Hann er samtals á 16 höggum yfir pari í 155. sæti.
1. keppnisdagur.
Guðmundur Ágúst lék á 70 höggum eða -2 og Bjarki Pétursson lék á 77 höggum eða +6.
Aðeins fimm íslenskir kylfingar hafa náð inn á lokaúrtökumót Evrópumótaraðarinnar. Birgir Leifur Hafþórsson lék 13 sinnum á lokaúrtökumótinu og er eini íslenski karlkylfingurinn sem hefur tryggt sér keppnisrétt á Evrópumótaröðinni. Björgvin Sigurbergsson lék á lokaúrtökumótinu árið 2001 og árið 2019 var Andri Þór Björnsson á lokaúrtökumótinu líkt og Bjarki og Guðmundur Ágúst.
Alls var keppt á fjórum golfvöllum á Spáni á 2. stigi úrtökumótsins og léku Bjarki og Guðmund Ágúst á sama vellinum – Isla Canela Links í Huelva á Spáni. Haraldur Franklín Magnús, GR, var einnig á meðal keppenda á 2. stiginu á þessum velli en hann var fjórum höggum frá því að komast áfram.
Alls tóku 10 keppendur frá Íslandi á úrtökumótinu fyrir DP Evrópumótaröðina á þessu hausti. Það er jöfun á meti sem sett var árið 2019 en þá léku einnig 10 keppendur frá Íslandi á úrtökumótunum.
Aðrir íslenskir keppendur sem tóku þátt á 1. stigi úrtökumótsins eru: Axel Bóasson, GK, Kristófer Karl Karlsson, GM, Aron Snær Júlíusson, GKG, Hákon Örn Magnússon, GR, Kristófer Orri Þórðarson, GKG, Andri Már Óskarsson, GOS og Ragnar Már Garðarsson.
Bjarki Pétursson, sem varð Íslandsmeistari í golfi 2020, komst í gegnum 1. stig úrtökumótsins á móti sem fram fór á Haugschlag vellinum í Austurríki. Bjarki lék samtals á 7 höggum undir pari vallar, 281 höggi, (72-70-69-70). Bjarki er að taka þátt á úrtökumótinu fyrir DP Evrópumótaröðina í annað sinn á ferlinum – en hann fór alla leið inn á lokaúrtökumótið, eða 3. stigið, árið 2019. Í kjölfarið fékk hann takmarkaðan keppnisrétt á mótaröðinni á þessu tímabili.
Guðmundur Ágúst, sem varð Íslandsmeistari í golfi árið 2019, þurfti ekki að fara í gegnum 1. stig úrtökumótsins en hann hefur leikið á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, á þessu tímabili. Þetta er í fimmta sinn sem Guðmundur Ágúst keppir á úrtökumótinu fyrir DP Evrópumótaröðina. Hann féll úr á 2. stiginu árið 2016, og næstu tvö ár á eftir féll hann úr leik á 1. stiginu. Árið 2019 komst Guðmundur Ágúst inn á lokaúrtökumótið. Hann fékk keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni með góðum árangri á Nordic Tour atvinnumótaröðinni þar sem hann sigraði á þremur mótum á einu tímabili – sem tryggði honum keppnisrétt á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit á Isla Canela Links.
Alls komust 23 keppendur sem léku á Isla Canela Links vellinum áfram á lokaúrtökumótið sem fram fer 11.-16. nóvember á Lakes Course, Infinitum við borgina Tarragona á Spáni.
Bjarki lék á 19 höggum undir pari samtals (65-68-68-68) og endaði hann í 10. sæti.
Guðmundur Ágúst lék á 17 höggum undir pari vallar (69-66-69-67) og endaði hann í 14. sæti.
Haraldur Franklín endaði í 41. sæti á 11 höggum undir pari samtals (66-72-72-67). Hann var fjórum höggum frá því að komast áfram.