Guðmundur Ágúst Kristjánsson, atvinnukylfingur úr GKG, hefur leik á DP World Tour mótaröðinni fimmtudaginn 24. nóvember.
Fyrstu mót tímabilsins á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu fara fram í Suður-Afríku og fjórða mótið í þessari keppnistörn hjá Guðmundi verður á eyjunni Máritíus á Indlandshafi.
Fyrsta mótið hjá Guðmundi fer fram á Houghton golfvellinum í Jóhannesarborg í Suður-Afríku. Heildaverðlaunaféð í mótinu er um 150 milljónir kr.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit mótsins.
Alls eru 156 keppendur en mótið er einnig hluti af Sunshine Tour mótaröðinni í Suður-Afríku. Um helmingur keppenda er frá Suður-Afríku. Á þessu tímabili verða sex mót á DP World Tour haldin í samvinnu við Sunshine Tour í Suður-Afríku.
Keppnishaldið á TP World Tour teygir sig einnig til Ástralíu en á næstu tveimur vikum fara fram mót í Suður-Afríku og Ástralíu á sama tíma – og eru bæði mótin hluti af DP World Tour. Mótin í Ástralíu er haldin í samvinnu við Áströlsku atvinnumótaröðina.
GKG-ingurinn er í ráshóp með Otto Hennie og Herman Loubser sem eru báðir frá Suður-Afríku. Þeir hefja leik kl. 6:40 að morgni að íslenskum tíma fimmtudaginn 24. nóvember. Leiknir verða fjórir hringir á fjórum keppnisdögum.
Ræst er út á 1. og 10. teig á tímabilinu 6:20 – 8:20 fyrir hádegi þar sem að helmingur keppenda hefur leik. Eftir hádegi er ræst út að nýju á 1. og 10. teig á tímabilinu 11:20-13.20.
Heimamaðurinn Thriston Lawrence hefur titil að verja á mótinu en hann tryggði sér keppnisrétt á Opna mótinu á St. Andrews með sigrinum í fyrra – en þrír efstu kylfingarnir á mótinu í fyrra fengu keppnisrétt á risamótinu.
Það sama er í boði á mótinu þar sem að Guðmundur Ágúst tekur nú þátt. Þrjú efstu sætin gefa þátttökurétt á risamótinu á Bretlandseyjum, Opna mótinu sem fram fer í 151. skipti á Royal Liverpool vellinum í júlí 2023.
Mótaskrá DP World Tour 2022-2023 er hér:
Fimmtudaginn 1. desember hefst annað mótið á tímabilinu og fer það einnig fram í Jóhannesarborg en þá verður keppt á Blair Atholl Golf & Equestrian Estate vellinum á Investec South African Open Championship.
Alfred Dunhill meistaramótið fer síðan fram 8.-11. desember á Leopard Creek vellinum í Malelane í Suður-Afríku.
Fjórða mótið í þessari keppnistörn fer fram 15.-18. desember þegar AfrAsia Bank Mauritius Open
fer fram á Mont Choisy Le Golf, Grand Baie á eyjunni Máritíus.