Auglýsing

Samskipti – og stuðningur bæjar – og sveitarfélaga við starf golfklúbba landsins var til umfjöllunar á formannafundi Golfsambands Íslands þann 12. nóvember s.l.

Þar sagði Jón B. Stefánsson stjórnarmaður GSÍ og formaður þjónustunefndar GSÍ frá helstu niðurstöðum könnunar sem gerð var vorið 2022.

Á vormánuðum þessa árs var send út spurningakönnun á alla golfklúbba landsins, alls 62 klúbbar. Þar var spurt um samskipti og stuðning bæjar – og sveitarfélaga við golfklúbba í heimabyggð. Spurt var um ýmsa þætti sem snéru að stuðningi bæjar – og sveitarfélaga við golfíþróttina og golfklúbba.

Niðurstöður könnunarinnar benda sterklega til þess að golfklúbbar landsins séu á þeirri skoðun að þeir njóti ekki jafnræðis í samanburði við önnur íþróttafélög í viðkomandi bæjar – eða sveitarfélagi.

Jón sagði þrátt fyrir góð viðbrögð frá golfklúbbum landsins vanti enn upplýsingar frá um þriðjungi golfklúbba – og vonast hann til þess að enn betri niðurstaða fáist þegar ný könnun verður sett í gang. Alls svöruðu 42 klúbbar af alls 62.

Hann lagði einnig áherslu á að erfitt væri að gera samanburð á milli klúbba – og til framtíðar þyrfti að endurtaka þessa könnun og fá meiri dýpt í svör golfklúbbanna. Lagði hann til að GSÍ myndi fá aðstoð frá fagaðilum til að kafa dýpra í þessi mál áður en næsta könnun verður send út.

Í máli Jóns kom fram að eitt af helstu markmiðum könnunarinnar var að safna saman gögnum og upplýsingum. Sem til lengri tíma verður grunnur til að búa til öflugt verkfæri í samtalinu við bæjar – og sveitarfélög.

Könnunin gefur golfhreyfingunni tækifæri til þess að deila hugmyndum sín á milli. Dýrmætar upplýsingar fást með slíkri könnun sem eykur slagkraft hreyfingarinnar í samtali við stjórnvöld.

Eins og áður segir er það mat forsvarsmanna þeirra golfklúbba sem svöruðu að ekki sé gætt jafnræðis á meðal íþróttafélaga í bæjar – og sveitarfélögum. Þrátt fyrir það er stuðningur þeirra bæjar-og sveitarfélaga sem styðja við golfíþróttin er margvíslegur. Má þar nefna bein fjárframlög, þátttaka vegna nýbygginga, aðstoð við rekstur mannvirkja, viðhald, rekstur og sumarstarfsmenn – svo eitthvað sé nefnt.

Í könnunni kom fram að 28 klúbbar eru með golfvelli á landi þar sem ríki eða sveitarfélag er landeigandi, 16 klúbbar eru með golfvöll á landi í einkaeigu og 2 klúbbar eiga landið sjálfir þar sem golfvöllur þeirra er.

Stjórn GSÍ mun á næstunni fá aðstoð frá fagaðilum til þess að kafa dýpra í málefni sem tengjast stuðningi sem golfklúbbar fá frá bæjar – og sveitarfélögum. Gera þarf nýja könnun þar sem að aðaláherslan verður lögð á að fá svör við fjárhagslegum stuðningi og ítarlegri sundurliðun. Einnig þarf að fá samanburð við aðrar vinsælar íþróttagreinar.

Í máli Jóns kom fram að í framtíðinni er það markmið GSÍ að golfklúbbar landsins fái kynningarefni með gögnum um þann ábata sem golfíþróttin býr til í nærsamfélaginu. Þessi gögn þarf að kynna vel í bæjar – og sveitarstjórnum, og einnig í stjórnkerfinu hjá ríkisvaldinu.

Golfhreyfingin er nú þegar með mikið af gögnum sem sýna fram á að golfíþróttin hefur jákvæð áhrif á lýðheilsu. Einnig eru til gögn sem snúa að sjálfbærni og gæðastarfi sem tengjast heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna, samfélagsábyrgð íþróttafélaga, gögn um stjórnarhætti, forvarnargögn og viðbragðsáætlanir.

Markmið stjórnar GSÍ er að finna leiðir til þess að aðstoða golfklúbba landsins með sem bestum hætti í því verkefni að ná samtali við bæjar – og sveitarstjórnir landsins.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ