Golfsamband Íslands hefur valið kylfinga ársins 2022.
Þeir eru Perla Sól Sigurbrandsdóttir, Golfklúbbi Reykjavíkur, og Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar.
Þetta er í 25. skipti þar sem tveir einstaklingar eru valdir sem kylfingar ársins hjá GSÍ, kona og karl. Þetta er í fyrsta sinn sem Perla Sól fær þessa viðurkenningu og í þriðja sinn sem Guðmundur Ágúst er kylfingur ársins.
Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins en frá árinu 1998 hefur karl og kona verið valin sem kylfingar ársins.
Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum eða alls sex sinnum.
Perla Sól Sigurbrandsdóttir
Perla Sól er 16 ára gömul og keppir fyrir Golfklúbb Reykjavíkur. Þetta er í fyrsta sinn sem Perla Sól fær þessa útnefningu hjá Golfsambandi Íslands.
Árið 2022 var eftirminnilegt hjá Perlu Sól. Hún varð Evrópumeistari 16 ára og yngri á EM einstaklinga sem fram fór í Finnlandi í júlí s.l. Perla Sól skrifaði þar með nýjan kafla í golfsögu Íslands en hún er fyrsta stúlkan frá Íslandi sem nær að landa Evrópumeistaratitli í golfi.
Á Íslandsmótinu í golfi í Vestmannaeyjum varð Perla Sól Íslandsmeistari í fyrsta sinn – eftir spennandi keppni við Ólafíu Þórunni Kristinsdóttur. Perla Sól er næst yngsti sigurvegarinn frá upphafi í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi.
Á Opna breska meistaramótinu hjá áhugakylfingum, sem er eitt sterkasta áhugamannamót veraldar, féll Perla Sól naumlega úr keppni í 64 – manna úrslitum. Þar átti hún í höggi við keppenda sem var í næst efsta sæti heimslista áhugakylfinga á þeim tíma.
Perla Sól var valin í Evrópuúrval sem keppti á tveimur virtum liðakeppnum. Hún er sæti nr. 239 á heimslista áhugakylfinga og er efst íslenskra kvenna á þeim lista.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson
Þetta er í þriðja sinn sem Guðmundur Ágúst er valinn sem kylfingur ársins hjá Golfsambandi Íslands.
Guðmundur Ágúst er þrítugur og keppir fyrir Golfklúbb Kópavogs – og Garðabæjar.
Í nóvember á þesss ári tryggði hann sér keppnisrétt á DP World Tour atvinnumótaröðinni – sem er sterkasta atvinnumótaröð í karlaflokki í Evrópu. Guðmundur Ágúst er annar íslenski karlkylfingurinn sem nær að tryggja sér keppnisrétt á DP World Tour – og fetar þar með í spor Birgis Leifs Hafþórssonar.
Á þessu ári lék Guðmundur Ágúst á 18 mótum á Challenge Tour, Áskorendamótaröðinni, sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu í karlaflokki. Besti árangur hans á tímabilinu var 3. sæti á móti sem fram fór í Finnlandi í ágúst. Hann var nálægt því að vinna sér inn keppnisrétt á Opna breska meistaramótinu, The Open.
Guðmundur Ágúst lék á síðustu vikum þessa árs á fjórum mótum á DP World Tour, í Suður-Afríku og eyjunni Máritíus. Hann mun hefja leik að nýju á mótaröðinni í byrjun næsta árs og keppnistímabilið stendur allt fram í nóvember á næsta ári.
Kylfingar ársins frá upphafi:
Árið 1973 var fyrsta kjörið hjá GSÍ á kylfingi ársins. Birgir Leifur Hafþórsson hefur oftast verið kjörinn kylfingur ársins í karlaflokki eða alls 11 sinnum. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir er sú sem oftast hefur fengið þessa viðurkenningu hjá konunum eða alls sex sinnum.
1973 | Björgvin Þorsteinsson | GA | 1 | |||
1974 | Sigurður Thorarensen | GK | 1 | |||
1975 | Ragnar Ólafsson | GR | 1 | |||
1976 | Þorbjörn Kjærbo | GS | 1 | |||
1977 | Björgvin Þorsteinsson | GA | 2 | |||
1978 | Gylfi Kristinsson | GS | 1 | |||
1980 | Hannes Eyvindsson | GR | 1 | |||
1981 | Ragnar Ólafsson | GR | 2 | |||
1982 | Sigurður Pétursson | GR | 1 | |||
1983 | Gylfi Kristinsson | GS | 2 | |||
1984 | Sigurður Pétursson | GR | 2 | |||
1985 | Sigurður Pétursson | GR | 3 | |||
1986 | Úlfar Jónsson | GK | 1 | |||
1987 | Úlfar Jónsson | GK | 2 | |||
1988 | Úlfar Jónsson | GK | 3 | |||
1989 | Úlfar Jónsson | GK | 4 | |||
1990 | Úlfar Jónsson | GK | 5 | |||
1991 | Karen Sævarsdóttir | GS | 1 | |||
1992 | Úlfar Jónsson | GK | 6 | |||
1993 | Þorsteinn Hallgrímsson | GV | 1 | |||
1994 | Sigurpáll Geir Sveinsson | GA | 1 | |||
1995 | Björgvin Sigurbergsson | GK | 1 | |||
1996 | Birgir Leifur Hafþórsson | GL | 1 | |||
1997 | Birgir Leifur Hafþórsson | GL | 2 | |||
1998 | Björgvin Sigurbergsson | GK | 2 | Ragnhildur Sigurðardóttir | GR | 1 |
1999 | Örn Ævar Hjartarson | GS | 1 | Ólöf María Jónsdóttir | GK | 1 |
2000 | Björgvin Sigurbergsson | GK | 3 | Ragnhildur Sigurðardóttir | GR | 2 |
2001 | Örn Ævar Hjartarson | GS | 2 | Herborg Arnardóttir | GR | 1 |
2002 | Sigurpáll Geir Sveinsson | GA | 2 | Ólöf María Jónsdóttir | GK | 2 |
2003 | Birgir Leifur Hafþórsson | GKG | 3 | Ragnhildur Sigurðardóttir | GR | 3 |
2004 | Birgir Leifur Hafþórsson | GKG | 4 | Ólöf María Jónsdóttir | GK | 3 |
2005 | Heiðar Davíð Bragason | GKj. | 1 | Ólöf María Jónsdóttir | GK | 4 |
2006 | Birgir Leifur Hafþórsson | GKG | 5 | Nína Björk Geirsdóttir | GKj. | 1 |
2007 | Birgir Leifur Hafþórsson | GKG | 6 | Nína Björk Geirsdóttir | GKj. | 2 |
2008 | Hlynur Geir Hjartarson | GOS | 1 | Ólöf María Jónsdóttir | GK | 5 |
2009 | Ólafur Björn Loftsson | NK | 1 | Valdís Þóra Jónsdóttir | GL | 1 |
2010 | Birgir Leifur Hafþórsson | GKG | 7 | Tinna Jóhannsdóttir | GK | 1 |
2011 | Ólafur Björn Loftsson | NK | 1 | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | GR | 1 |
2012 | Haraldur Franklín Magnús | GR | 1 | ÓIafía Þórunn Kristinsdóttir | GR | 2 |
2013 | Birgir Leifur Hafþórsson | GKG | 8 | Sunna Víðisdóttir | GR | 1 |
2014 | Birgir Leifur Hafþórsson | GKG | 9 | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | GR | 3 |
2015 | Birgir Leifur Hafþórsson | GKG | 10 | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | GR | 4 |
2016 | Birgir Leifur Hafþórsson | GKG | 11 | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | GR | 5 |
2017 | Axel Bóasson | GK | 1 | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | GR | 6 |
2018 | Haraldur Franklín Magnús | GR | 2 | Valdís Þóra Jónsdóttir | GL | 2 |
2019 | Guðmundur Ágúst Kristjánsson | GR | 1 | Valdís Þóra Jónsdóttir | GL | 3 |
2020 | Guðmundur Ágúst Kristjánsson | GR | 2 | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | GK | 1 |
2021 | Haraldur Franklín Magnús | GR | 3 | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | GK | 2 |
2022 | Guðmundur Ágúst Kristjánsson | GKG | 3 | Perla Sól Sigurbrandsdóttir | GR | 1 |