Golfklúbburinn Oddur fékk viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ á ársþingi Ungmennasambands Kjalarnesþings sem var haldið í golfskálanum á Urriðavelli fimmtudaginn 30. mars síðastliðinn.
Það voru fulltrúar ÍSÍ á þinginu, þau Hafsteinn Pálsson 2. varaforseti ÍSÍ, Garðar Svansson og Olga Bjarnadóttir, öll úr framkvæmdastjórn sem afhentu þeim Kára Sölmundarsyni formanni félagsins og Hrafnhildi Guðjónsdóttur íþróttastjóra viðurkenninguna.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Oddi sem er hér í heild sinni:
Árið 2006 fengum við fyrst viðurkenningu sem Fyrirmyndarfélag ÍSÍ sem síðar var ekki endurnýjuð og uppfærð miðað við breytta staðla og við höfðum lengi ætlað að koma því í góðan farveg. Með uppbyggingu 5000 manna hverfis í Urriðaholti var ljóst að til að þjóna börnum og unglingum í golfklúbbnum og tilvonandi golfurum betur en áður þyrftum við að gera breytingar í okkar íþróttastarfi. Með ráðningu á Hrafnhildi Guðjónsdóttur í starf íþróttastjóra var fyrsta skrefið tekið í átt að breyttum áherslum og skipuleggur hún starfið náið með okkar öflugu PGA kennurum og því erum við viss um að íþróttastarfið nái að vaxa og dafna í komandi framtíð.
Stjórn klúbbsins og starfsmenn munu leggja sitt af mörkum á komandi árum til að sýna öllum meðlimum klúbbsins og iðkendum í verki að Golfklúbburinn Oddur mun standa undir þeirri viðurkenningu að kallast Fyrirmyndarfélag ÍSÍ.