Gunnlaugur Árni Sveinsson, GKG, keppir á Evrópumóti einstaklinga í Eistlandi dagana 28. júní – 1. júlí. Þetta er í fyrsta sinn sem Gunnlaugur Árni tekur þátt á þessu móti.
Mótið heitir, European Amateur Champpionship er haldið af Golfsambandi Evrópu, EGA. Sigurvegarinn fær keppnisrétt á Opna breska meistaramótinu (The Open).
Alls eru 144 keppendur og er keppt í höggleik, 18 holur á dag, og niðurskurður eftir þriðja keppnishringinn þar sem að 60 efstu komast áfram.
Gunnlaugur Árni lék frábært golf á öðrum keppnisdegi eða 4 höggum undir pari vallar. Hann er samtals á -4 eftir 36 holur kom sér í ágæta möguleika að komast í gegnum niðurskurðinn.
Skor keppenda á mótinu er með því besta sem gerist og fjórir leikmenn léku á 10 höggum undir pari eða 62 höggum á fyrsta keppnisdeginum.
Keppt er á Pärnu Bay Golf Links vellinum í Eistlandi. Völlurinn hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð keppnisvalla í Evrópu.
Lassi Pekka Tilander hannaði völlinn ásamt Mick McShane – sem mótaði jarðveg golfvallarins. McShane hefur m.a. komið að slíkum verkefnum á Castle Course og Kingsbarns völlunum á St. Andrews golfsvæðinu á Skotlandi. .
Völlurinn er par 72, og er um 6.200 metrar.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit í Eistlandi.
Margir þekktir kylfingar hafa sigrað á þessu móti sem fram fór í fyrsta sinn árið 1986.
Nicolai Højgaard frá Danmörku sigraði árið 2018, og þar var Norðmaðurinn Viktor Hovland jafn í öðru sæti – líkt og árið 2016 þegar Hovland var einnig nálægt sigri.
Rory McIlroy frá Norður-Írlandi sigraði árið 2006 og Sergio Garcia frá Spáni árið 1995.