Íslenska stúlknalandsliðið í golfi keppir á heimsmóti stúlknalandsliða 2023, World Junior Girls Championship, sem fram fer á Brampton vellinum í Kanada dagana 4.-7. október. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensku liði er boðið að taka þátt á þessu móti.
Alls eru 21 þjóðir sem taka þátt, tvö lið eru frá Kanada og eru liðin því alls 22 og eru keppendur eru 66 alls.
Mótið er einstaklings – og liðakeppni. Leiknar verða 72 holur í höggleik. Tvö bestu skorin telja á hverjum hring í liðakeppninni.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit í einstaklingskeppninni:
Smelltu hér fyrir stöðuna í liðakeppninni:
Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, Helga Signý Pálsdóttir, GR og Pamela Ósk Hjaltadóttir, GM, skipa lið Íslands. Ólafur Björn Loftsson, afreksstjóri GSÍ, og Baldur Gunnbjörnsson sjúkraþjálfari, eru með íslenska liðinu í Kanada.
1. keppnisdagur:
Perla Sól lék á -1 eða 70 höggum. Hún er í 5. sæti í einstaklingskeppninni, og aðeins tveimur höggum frá efsta sætinu. Helga Signý lék á 82 höggum eða +11 og er hún í 60. sæti og Pamela Ósk lék á 85 höggum (+14) og er hún í 63. sæti. Í liðakeppninni er Ísland í 19. sæti.
Mótið er mjög sterkt og átta keppendur eru á meðal 100 efstu á heimslista áhugakylfinga. Spánn hefur titil að verja en þetta er í sjöunda sinn sem mótið fer fram.
Sigurvegarinn í einstaklingskeppninni fær boð um að taka þátt á CPKC LPGA atvinnumótinu sem fram fer dagana 22.28. júlí 2024 á Earl Grey vellinum í Calgary.
Liðin sem taka þátt eru: Austurríki, Belgía, Kanada (2), Taiwan, Kólumbía, Tékkland, Danmörk, England, Finnland, Þýskaland, Ísland, Ítalía, Mexíkó, Perú, Pólland, Suður-Kórea, Spánn, Svíþjóð, Sviss, Bandaríkin, Wales.
Ólafur Björn segir að samkvæmt heimslista áhugakylfinga þá mótið í Kanada það sterkasta í heimi fyrir stúlkur 18 ára og yngri
„Við erum afar þakklát að fá tækifærið að keppa á stærsta sviðinu og mætum full tilhlökkunar til leiks. Það eru spennandi keppnisdagar framundan. Stelpurnar hafa leikið tvo góða æfingahringi á vellinum og undirbúið sig vel. Völlurinn er 5811 metra langur „parkland“ völlur og er býsna krefjandi. Þröngar brautir, þykkur kargi og flatirnar hraðar (um 11 á stimp). Völlurinn reynir á alla þætti leiksins, verðlaunar góð högg og refsar slæmum. Hann er í toppstandi, allt eins og best er á kosið. Umgjörðin er mjög flott og greinilega mikill metnaður að búa til góða upplifun. Ég hef til að mynda aldrei áður séð framverði (e. forecaddy) á öllum brautum vallarins áður og hvað þá á æfingahringjum. Vissulega óþarfi að mínu mati en ágætt dæmi um metnaðinn hjá mótshöldurum.“