Tómas F. Aðalsteinsson lektor við Williams College í Massachusetts í Bandaríkjunum og yfirþjálfari kvennagolfliðs skólans skrifar:
Flestir kylfingar sem ég þekki vilja spila gott golf og spila á lægra skori í hverjum einasta hring. Markmiðið er þá að lækka forgjöfina og vinna til verðlauna – eða allaveganna að tapa ekki fyrir félögunum. Það er alveg sjálfsagt að kylfingar vilji spila vel í hvert sinn sem haldið er á völlinn, en kannski ekki eins raunhæft að kylfingar muni ná sínum besta árangri í hvert sinn sem boltinn er settur á tíið. Oft er þó talað um að toppa á réttum tíma. Hvað þýðir það? Fyrir áhugakylfing getur það verið að vinna fyrirtækjamótið með vinnufélögunum eða ná í verðlaunasæti í sínum flokki í meistaramótinu. Það getur líka verið að standa sig vel í Íslandsmóti, í úrtökumóti fyrir atvinnumótaröð, eða fyrir bestu kylfinga heims – að vinna risamót.
Tiger Woods hefur margoft sagt frá því að markmiðið hans sé að toppa fjórum sinnum á ári.
Tiger Woods hefur margoft sagt frá því að markmiðið hans sé að toppa fjórum sinnum á ári. Hann stillir upp mótaskrá og æfingaplani út frá því að ná sem allra bestum árangri í risamótunum fjórum. Brooks Koepka hefur unnið fjögur risamót á annars stuttum atvinnumannaferli og hann hefur talað um hve mikilvægt það er fyrir hann að keppa vikuna fyrir mót, á meðan margir aðrir atvinnukylfingar velja að að keppa ekki þá viku. Þessir bestu kylfingar heims skipuleggja hvenær og í hvaða mótum þeir vilja spila sitt besta golf. Ef kylfingur hefur það að markmiði að toppa á réttum tíma, þá þarf að skipuleggja það.
Ef kylfingur hefur það að markmiði að toppa á réttum tíma, þá þarf að skipuleggja það.
Fyrst og fremst er mikilvægt að skilja að fyrir og eftir toppinn er ekki annar toppur, heldur sveiflast árangurinn upp og niður og nær vonandi hámarki á tilsettum tíma. Það er því jafn mikilvægt að gera ráð fyrir að árangurinn nái ákveðinni lægð og spilamennskan á þeim tíma verði því líklegast ekki samkvæmt metnaðarfyllstu væntingum. Í skipulagningu þarf að gera ráð fyrir ferlinu yfir allt tímabilið, en ekki bara hvenær eigi að ná toppnum. Í viðtali eftir sigurinn á Íslandsmótinu 2020 talaði Bjarki Pétursson um það að hann hafði æft lítið á vormánuðum og nýtt tímann í það að vinna og safna peningum fyrir atvinnumennsku. Þetta dæmi sýnir mikilvægi jafnvægis á milli álags og þess að taka frí frá æfingum og keppni til þess að hámarka líkamlega og andlega frammistöðu þegar mest á reynir.
Tímabilaskipting (e. periodization) hefur verið algeng í þjálfun íþróttafólks og þá sérstaklega hjá þeim þar sem mest reynir á þol og styrk. Vel útfærð tímabilaskipting hefur hins vegar ekki verið eins algeng í skipulagi þjálfunar hjá kylfingum. Þegar kemur að líkamlega þætti þjálfunar þá þekkist vel mikilvægi þess að hafa gott jafnvægi á álagi og endurheimt til þess að hámarka árangur. Minna hefur verið rætt og skrifað um álag og endurheimt þegar kemur að andlega þætti kylfinga. Keppnisgolfi fylgir oft mikið andlegt álag og væntingar um árangur miklar. Krafan um stöðugan árangur er algeng meðal afrekskylfinga, en stöðugur árangur er sjaldnast raunin. Það er óraunhæft að vænta þess að við spilum alltaf okkar besta golf. Kylfingar þurfa að skipuleggja vel hvíld og endurheimt, til þess álag við æfingar leiði til bættrar frammistöðu.
Kylfingar þurfa að skipuleggja vel hvíld og endurheimt, til þess álag við æfingar leiði til bættrar frammistöðu.
Tímabilaskipting er í grunninn aðferð við tímaskipulag. Tímabilaskipting felur í sér ítarlegt skipulag þjálfunar, keppni, hvíldar og endurheimtar með það að markmiði að toppa á réttum tíma. Fyrsta skrefið er að skoða og skrá árangur fyrri ára:
Hvernig hefur árangurinn verið í mótum yfir keppnistímabilið?
Hvenær á tímabilinu og í hvaða mótum er markmiðið að toppa?
Það er mikilvægt að skoða og fylgjast með sveiflum í frammistöðu og þá til dæmis hægt að notast við skor á hring sem viðmið og hvernig skorið hefur þróast.
Hvað spilarðu vanalega í mörgum mótum í röð? Hversu margar vikur í röð?
Áttu það til að spila á lægsta skorinu á fyrsta mótinu eftir hvíld, í öðru móti, fimmta, sjötta, o.s.frv.?
Ef markmiðið er að toppa oftar en einu sinni á keppnistímabilinu þá þarf skipulagið að vera það sama fyrir hvern topp. Hvíld og endurheimt eru alveg jafn mikilvæg og álag við æfingar, en oft gleymist að gera ráð fyrir því í skipulaginu. Eftir að Luke Donald hafði náð fyrsta sæti heimslistans í golf árið 2011 þá fór árangurinn dvínandi þrátt fyrir aukið æfingaálag. Hann var við það að hætta í golfi og áhuginn ekki til staðar. Það var ekki fyrr en gamli háskólaþjálfarinn hans hjá Northwestern, Pat Goss, minnti hann á að þegar hann var að spila sitt besta golf í háskólagolfinu, þá tók hann sér alltaf tveggja mánaða frí frá golf á veturnar. Hann breytti skipulaginu sínu aftur, gerði ráð fyrir góðri hvíld og endurheimt, og árangurinn fór batnandi.
Hvíld og endurheimt eru alveg jafn mikilvæg og álag við æfingar, en oft gleymist að gera ráð fyrir því í skipulaginu.
Þegar búið er að ákveða í hvaða mótum markmiðið er að toppa, þá er hægt að skipuleggja keppnistímabilið (eða tímabilin) og velja mótin sem styðja við það að toppa á réttum tíma. Því næst er hægt að ákveða hvenær og hve lengi er þörf á hvíld og endurheimt til móts við álag við æfingar, undirbúning og keppni. Tímabilaskiptingin hjá hverju kylfing getur verið misjöfn eftir því hvort miðað sé við eitt langt tímabil af keppni, undirbúning og frí frá æfingum og keppni á hverju ári, eða hvort það séu fleiri styttri tímabil. Nú, við áramót, er gott að huga að tímabilaskiptingu næsta árs.
Hvenær byrjar undirbúningstímabilið?
Hvenær er keppnistímabilið (eða tímabilin)?
Hvenær er tekið frí frá golfi?
Tímabilaskiptingin ein og sér tryggir ekki árangur á tilsettum tíma, en hún eykur líkurnar á því að undirbúningurinn skili sér í bættri frammistöðu. Svo er alltaf gagnlegt að fá aðstoð frá þeim sem hafa þekkingu á þínum leik og hvað megi bæta. Gangi ykkur vel!
Tómas F. Aðalsteinsson er lektor við Williams College í Massachusetts í Bandaríkjunum og er yfirþjálfari kvennagolfliðs skólans. Hann er með meistaragráðu í íþróttasálfræði og veitir þjálfun og fræðslu um hugarþjálfun í golfi og öðrum íþróttum. Tómas var valinn þjálfari ársins í þriðjudeild bandaríska háskólagolfsins fyrir tímabilið 2018-2019.