Kristín María Þorsteinsdóttir skrifar.
Viðtal sem birt var í 5. tbl. 2019 í tímaritinu Golf.is sem GSÍ gefur út.
Hulda Clara Gestsdóttir er 17 ára gamall kylfingur í GKG. Hún lék frábært golf í sumar, endaði til að mynda í fjórða sæti á Íslandsmótinu í höggleik, spilaði stórt hlutverk í sigursveit GKG á Íslandsmóti golfklúbba og varð fyrsti Íslendingurinn til að vinna einstaklingskeppni á EM golfklúbba. Hulda Clara hefur leikið golf frá unga aldri en pabbi hennar kom henni af stað.
Tímaritið má lesa í heild sinni hér:
„Ég fékk fyrsta golfsettið mitt þegar ég var þriggja ára en það var tekið af mér af því að ég réð ekki við það. Ætli ég hafi ekki byrjað að æfa golf sex ára. Mér fannst þetta ekki gaman fyrst en við vorum alltaf í einhverjum púttleikjum upp á Prince Polo og þá varð þetta gaman. Þegar forgjöfin fór að lækka varð þetta ennþá skemmtilegra.“
Systurnar styðja hvora aðra
Eva María, systir Huldu Clöru, er ári yngri og einnig afrekskylfingur en þær eru duglegar að æfa saman.
„Það er mjög gaman að hafa Evu með mér, til dæmis er gott að hafa vinkonu með sér í keppnisferðum sem maður getur talað við og skilur þetta.“
Hún segir engan ríg ríkja á milli þeirra á golfvellinum.
„Alls ekki, við erum bara að styðja hvor aðra. Mér finnst það ekki erfitt og ekki henni heldur, held ég. Ég hef að minnsta kosti ekki pælt í því en við æfum mikið saman, sérstaklega vegna þess að ég er komin með bílpróf, þá kemur hún með mér.“
Foreldrar þeirra eru duglegir að mæta og fylgjast með systrunum á mótum en hún segir það veita sér sjálfstraust að sjá þau úti á velli.
„Já, mér finnst það mjög gaman. Það hjálpar mér að sjá þau og þau hughreysta mig þegar ég er undir pressu. Þau koma mjög oft að horfa, annað hvort þeirra eða bæði.“
Valdi golfið framyfir fótboltann
Hulda Clara þurfti líkt og margir íþróttamenn á hennar aldri að velja á milli íþrótta.
„Ég var í fótbolta lengi og er nýhætt. Ætli keppnisskapið og þrjóskan hafi ekki hjálpað mér í golfinu, á góðan hátt. Það endaði svo þannig að ég þurfti að velja og golfið varð fyrir valinu.“
Hulda Clara segir golfið hafa hjálpað sér að mörgu leyti, til að mynda í skólanum, en hún er nemi í Verzlunarskóla Íslands.
„Mér finnst ég hafa lært mikið af því að vera undir pressu og að vera með gott skipulag. Ég hef fengið mikið út úr því, til dæmis þegar kemur að skólaverkefnum og þess háttar. Það hjálpar klárlega og er eitthvað sem ég held að muni nýtast mér. Mér finnst mjög erfitt að ná ekki markmiðunum mínum þegar ég hef lagt mjög hart að mér. Ég set mér auðvitað markmið til að ná þeim og næ þeim mjög oft en það reynir á þegar það tekst ekki.
Hulda Clara endaði í þriðja sæti á stigamótaröð GSÍ eftir góða spilamennsku í allt sumar.
„Í fyrra spilaði ég kannski einn hring undir pari en núna held ég að ég hafi allavega spilað einn hring undir pari í hverju móti. Mér finnst það ekkert mál núna og finnst ég ekki þurfa að passa mig heldur get ég haldið áfram að spila mitt golf.“
Ekki sátt við fjórða sætið
Hulda Clara endaði í fjórða sæti á Íslandsmótinu. Flestir myndu telja það ágætisárangur. Þegar blaðamaður hrósaði Huldu fyrir árangurinn á Íslandsmótinu hló hún og sagðist ekki hafa verið sátt.
„Ég ætlaði að vinna. Ég spilaði vel fyrsta daginn, náði ekki að spila eins vel og ég vildi annan daginn en mig minnir að hinir tveir hafi verið ágætir hjá mér.
Hulda Clara endaði í fjórða sæti mótsins af 36 konum, sem flestir myndu telja ágætis árangur.
„Fjórða sætið var fínt en ég ætlaði samt að vinna. Það var markmiðið mitt og ég náði því ekki sem var erfitt. Ég set markið hátt og reyni að komast þangað.“
Annika Sörenstam er helsta fyrirmynd Huldu Clöru og segir hún hafa verið frábæra upplifun að fá að hitta hana þegar hún kom til landsins sumarið 2018.
„Það var geggjað að hitta hana, ég fékk meira að segja að fara í vippkeppni við hana á Stelpugolfdeginum. Ég hitti hana líka á mótinu hennar í Svíþjóð, hún er frábær kylfingur og góð fyrirmynd.“
Fyrsti sigurinn í alþjóðlegu móti
Sveit GKG á Íslandsmóti golfklúbba bar sigur úr býtum á heimavelli og fékk þar með þátttökurétt á EM golfklúbba í Ungverjalandi, en mótið fór fram á Balaton golfvellinum rétt utan við Búdapest. Hulda Clara var ein af þremur keppendum en auk hennar léku Eva María og Árný Eik Dagsdóttir fyrir hönd GKG.
„Völlurinn var styttri en ég bjóst við en ótrúlega fallegur. Mér finnst ótrúlegt hvað hann er flottur og vel við haldið miðað við að hann er eiginlega úti í sveit. Sumar brautir voru ótrúlega þröngar svo maður þurfti virkilega að huga að leikskipulaginu.
Þegar ég fór á EM á Ítalíu lærði ég meira um leikskipulag, bæði af Greg landsliðsþjálfara og hinum stelpunum sem hafa verið í háskólagolfi. Ég kunni alveg að gera leikskipulag en lærði að gera það betur sem varð til dæmis til þess að ég kíkti alltaf í vallarvísinn minn fyrir hvert einasta högg sem mér fannst mjög þægilegt.
Fyrsta daginn var mjög vont veður og ég hugsaði með mér að það væri ólíklegt að einhver kæmi inn undir pari. Þannig ég hélt mínum leik öruggum og stöðugum og tók engar áhættur. Ég kom í hús á tveimur höggum yfir pari og það var svolítið skrítið að vera í forystu erlendis og ná að halda það út.“
GKG var í 12. sæti í liðakeppninni fyrir lokahringinn en með frábærri spilamennsku náði GKG að fara upp í 7. sæti á lokahringnum. Hulda Clara lék hringina þrjá á tveimur höggum yfir pari sem skilaði henni sigri í einstaklingskeppni mótsins og varð hún fyrsti Íslendingurinn til að ná þeim árangri.
„Þetta var fyrsta golfmótið sem ég vann erlendis. Mér fannst þetta ótrúlega gaman en það sem mér fannst skrítið var að vera í fyrsta sæti alla dagana en aldrei í lokaráshópi vegna þess að þetta var liðakeppni. Ég var bara í ráshópi með einhverjum sem var að spila á allt öðru skori en ég svo mér leið eiginlega aldrei eins og ég væri í forystu. Það var í rauninni fínt því þá var ég ekkert að pæla í þeim, bara mínu golfi. Ég held ég hafi aldrei pælt jafn lítið í meðspilurunum mínum.“
Mér fannst mjög skrítið að vera fyrst til að vinna svona mót, ég hélt að það hefði einhver gert það áður. Það kom mér verulega á óvart en mér fannst það geggjað. Ég er búin að fá fullt af skilaboðum og fá stuðning frá fólki sem er ótrúlega gaman.“
Þjálfaraskipti og miklar framfarir
Hulda Clara segist vera ánægð með sumarið en hún var með mikla forgjafarlækkun.
„Mér fannst sumarið vera gott, ég lækkaði úr 1,6 í -1,4 í forgjöf sem er mikið þegar maður er kominn svona lágt. Ég skipti um þjálfara í janúar þegar Arnar Már kom í GKG. Í sumar lengdi ég mig um 20-30 metra sem hefur hjálpað mér mikið. Ég náði öllum markmiðunum mínum nema einu, ég náði náttúrulega ekki að verða Íslandsmeistari.“
Færri mót og meiri gæði
Hulda Clara lék á Mótaröð þeirra bestu í sumar en tók einungis þátt í tveimur mótum á Íslandsbankamótaröðinni í sínum aldursflokki.
„Mér finnst skemmtilegra að spila á Mótaröð þeirra bestu. Þar eru fleiri til að keppa við sem gerir það skemmtilegra og mér finnst ég í raun vera betri þegar ég stend mig vel á meðal þeirra bestu. Svo ég kann að meta hvíldina sem ég fæ inn á milli þegar Íslandsbankamótaröðin er. Ég keppti á tveimur mótum en komst til dæmis ekki í Íslandsmót unglinga í holukeppni þar sem ég var í Svíþjóð að keppa og myndi alltaf velja mót erlendis fram yfir það.“
Hún segir mikilvægt að kylfingar taki sér pásu eftir keppnistímabilið og hefur sjálf reynslu af of miklu álagi í kringum golf.
„Ég tók mér pásu eftir EM fram í nóvember og svo fer ég líklegast til Bandaríkjanna um jólin og keppi í tveimur mótum. Mér finnst mikilvægt að taka að minnsta kosti þrjár vikur í pásu eftir sumarið og hugsa ekkert um golf. Ég hef lent í því að hafa fundist ég vera að keppa alltof mikið, þá var ég á báðum mótaröðunum og keppti allar helgar og fékk þá kannski bara pásu á mánudögum. Mér fannst það bara alltof mikið og vel mér því frekar mót því ég vil ekki lenda í þessu aftur. Ég get einbeitt mér betur að þeim mótum sem ég tek þátt í.“
Ólafía og Valdís ryðja brautina
Hulda Clara er með háleit markmið en ljóst er að hún hefur fulla trú á sjálfri sér.
„Ég er ekki búin að setja mér markmið fyrir næsta ár, ég geri það yfirleitt um áramót. Það verður þá mjög líklega að verða Íslandsmeistari þar sem ég náði því ekki núna og ég ætla mér að ná því. Ég ætla að fara í háskóla í Bandaríkjunum á golfstyrk og í framhaldinu vonandi komast á LPGA. Það hefur verið gott að sjá Ólafíu og Valdísi spila á stærstu mótum í heimi og sýnir að þetta er raunhæft markmið.“