Hilmar Snær Örvarsson afrekskylfingur úr GKG er fjölhæfur íþróttamaður.
Hilmar Snær er eini keppandinn frá Íslandi á Vetrarleikunum á Ólympíumóti fatlaðra sem fram fer í PyeongChang í Suður-Kóreu. Hilmar Snær, sem er 17 ára gamall, var fánaberi á opnunarhátíðinni.
Hilmar er fjórði Íslendingurinn sem keppir á Vetrar-Paralympics og líka sá yngsti.
Hilmar Snær keppir í svigi þann 14. mars næstkomandi og svo í stórsvigi þann 17. mars.
Hilmar Snær fékk krabbamein í fótinn í byrjun árs 2009 og er hann með gervifót fyrir neðan hné á vinstra fæti. Hilmar Snær hefur keppt á Íslandsbankamótaröðinni og Eimskipsmótaröðinni með góðum árangri. Þess má geta að hann er með um 5 í forgjöf.
Við sendum Hilmari góða strauma á meðan keppni stendur yfir og óskum honum góðs gengis.