Þrír íslenskir atvinnukylfingar tóku þátt á LET Evrópumótaröð kvenna, sterkustu atvinnumótaröð Evrópu á tímabilinu 2020 sem lauk um síðustu helgi á Spáni.
Emily Kristine Pedersen frá Danmörku sigraði með yfirburðum í stigakeppninni á þessu tímabili.
Pedersen sigraði á sínu fyrsta móti á LET Evrópumótaröðinni árið 2015. Það var eini sigur hennar þar til að hún sigraði á móti í Tékklandi í lok ágúst á þessu ári. Þá tók við mikil sigurhrina hjá þeirri dönsku. Hún sigraði á fjórum síðustu mótunum á LET Evrópumótaröðinni á þessu ári – og er alls með 6 sigra á ferlinum.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK) og Valdís Þóra Jónsdóttir (GL) voru báðar með keppnisrétt á LET mótaröðinni en Ólafía Þórunn Kristinsdóttir (GR) var með takmarkaðan keppnisrétt.
Keppnistímabilið 2020 var óvenjulegt í alla staði vegna Covid-19 og mun færri mót fóru fram en áætlanir gerðu ráð fyrir. Valdís Þóra gat ekki tekið þátt á lokamótunum vegna meiðsla.
Guðrún Brá lék á alls 8 mótum á tímabilinu, Valdís Þóra lék á 3 og Ólafía Þórunn lék á 2 mótum.
Vegna Covid-19 ástandsins verður engin breyting gerð á keppnisrétti kylfinga á næsta tímabili.
Valdís Þóra og Guðrún Brá verða því báðar með fullan keppnisrétt á LET Evrópumótaröðinni og Ólafía Þórunn verður áfram með takmarkaðan keppnisrétt – en hún er einnig með keppnisrétt á Symetra atvinnumótaröðinni Í Bandaríkjunum líkt og Valdís Þóra Jónsdóttir.
Valdís Þóra endaði í 88. sæti á stigalista LET Evrópumótaraðarinnar 2020, Ólafía Þórunn endaði í 122. sæti og Guðrún Brá í 127. sæti.
LET Evrópumótaröðin heldur utan um ýmsa tölfræði hjá keppendum á mótaröðinni og hér fyrir neðan má sjá hvar íslensku kylfingarnir enduðu í hverjum tölfræðiþætti fyrir sig.
Högglengd
Valdís Þóra Jónsdóttir er á meðal þeirra högglengstu á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Emma Cabrera-Bello frá Spáni er sú högglengsta en hún var með 285 metra að meðaltali í þeim upphafshöggum sem mæld voru á LET Evrópumótaröðinni á síðasta keppnistímabili. Valdís Þóra er í 12. sæti á þessum lista með rétt tæplega 267 metra að meðaltali.
Sæti | Nafn | Þjóðerni | Metrar að meðaltali |
1. | Emma Cabrera-Bello | Spánn | 285,13 metrar. |
12. | Valdís Þóra Jónsdóttir | Ísland | 266, 81 metrar. |
70. | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | Ísland | 253, 50 metrar. |
112. | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | Ísland | 248, 22 metrar. |
Hittar brautir á par 4 og par 5 holum
Sæti | Nafn | Þjóðerni | % |
1. | Maria Hernandez | Spánn | 88,11 |
20. | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | Ísland | 75,80 % |
52. | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | Ísland | 71,64 % |
194. | Valdís Þóra Jónsdóttir | Ísland | 50% |
Guðrún Brá Björgvinsdóttir er á meðal 20 efstu í Evrópu á þessu sviði. Hún hittir brautir í upphafshöggum sínum í rétt tæplega 76% tilvika. Maria Hernandez frá Spáni er efst á þessu sviði með 88%.
„Bjarga pari“ úr glompu – Sandsaves
Sæti | Nafn | Þjóðerni | % |
1. | Stephanie Na | Ástralía | 90% |
44. | Valdís Þóra Jónsdóttir | Ísland | 53,33 % |
113. | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | Ísland | 28,57 % |
Pútt að meðaltali á 18 holum
Valdís Þóra er á meðal 15 efstu á þessum lista á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.
Sæti | Nafn | Þjóðerni | Pútt að meðaltali |
1. | Mimmi Bergman | Svíþjóð | 28,33 |
14. | Valdís Þóra Jónsdóttir | Ísland | 29,44 |
66. | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | Ísland | 30,60 |
167. | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | Ísland | 32,31 |
Hér nær Valdís Þóra að vera á meðal 15 efstu á sterkustu mótaröð Evrópu. Mimmi Bergman frá Svíþjóð var með 28,33 pútt að meðaltali sem var besta tölfræðin á árinu 2020. Valdís Þóra er með 29,44 pútt að meðaltali. Athygli vekur að Emily Kristine Pedersen frá Danmörku er í sæti nr. 46 á þessum lista með 30,28 pútt að meðaltali.
Hittar flatir í tilætluðum höggafjölda – Regulation
1. högg á par 3 holu
2. högg á par 4 holu
2. eða 3. högg á par 5 holu
Í þessum tölfræðiflokki nær Ólafía Þórunn að vera á meðal 50 efstu. Cara Gainer frá Englandi er með glæsilega tölfræði og er efst. Hún hittir flatir í tilætluðum höggafjölda í 8,5 skipti af hverjum 10 tilraunum. Ólafía Þórunn er með 71% hlutfall í hittum flötum.
Sæti | Nafn | Þjóðerni | % |
1. | Cara Gainer | England | 85,19 |
46. | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | Ísland | 71,11 |
98. | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | Ísland | 65,97 |
136. | Valdís Þóra Jónsdóttir | Ísland | 62,96 |
Skor að meðaltali
Ólafía Þórunn er hér á meðal 20 efstu með 71,6 högg að meðaltali. Atthaya Thitikul frá Taílandi er með besta meðalskorið eða 69,5 högg að meðaltali. Emily Kristine Pedersen frá Danmörku er í 2. sæti með 70,4 högg að meðaltali.
Sæti | Nafn | Þjóðerni | Högg 18 holur meðaltal |
1. | Atthaya Thitikul | Taíland | 69,50 |
13. | Ólafía Þórunn Kristinsdóttir | Ísland | 71,60 |
59. | Valdís Þóra Jónsdóttir | Ísland | 73,00 |
152. | Guðrún Brá Björgvinsdóttir | Ísland | 75,25 |