/

Deildu:

Auglýsing

– Vinkonurnar Hulda og Ragnheiður hafa tekið golfið með trompi undanfarin ár

Hulda Alfreðsdóttir og Ragnheiður H. Ragnarsdóttir eru æskuvinkonur sem fæddust á Siglufirði á þeim árum þegar sjónvarpsútsendingar voru að hefjast á Íslandi. Þrátt fyrir að margir í nærumhverfi þeirra hafi verið mikið í golfi í gegnum tíðina höfðu þær Hulda og Ragnheiður engan áhuga á þessari frábæru íþrótt. Það breyttist með óvæntum hætti og frá þeim tíma hafa þær tekið golfið föstum tökum og nýta hverja stund til þess að leika golf.

Vinkonurnar eru félagar í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Ragnheiður er tiltölulega nýflutt á höfuðborgarsvæðið. Hún starfar hjá Eimskip en Hulda starfar hjá TVG Zimsen sem er dótturfélag Eimskips.

Golf á Íslandi ræddi við þær Huldu og Ragnheiði á dögunum þar sem þær voru að leika golf með Birni Steinari Stefánssyni (Bjössa) eiginmanni Huldu og 9 ára barnabarni þeirra, Árna Birni. Veðrið var frábært eins og flesta daga í ágústmánuði og þær Hulda og Ragnheiður sögðu golfsögu sína í stuttu máli.

Ragnheiður: „Ég flutti hingað á höfuðborgarsvæðið í ágúst í fyrra frá Siglufirði. Ég byrjaði í golfi á Siglufirði eftir að Hulda og Bjössi skoruðu á mig að byrja.
Hulda: „Mér fannst golf alveg fáránlega asnaleg íþrótt og leiðinleg.  Ég var búin að segja lengi að ég ætlaði aldrei að byrja í þessu, aldrei. Ég fór í golfmót með Bjössa fyrir mörgum árum og fannst þetta alveg glatað.“
Ragnheiður: „Við fórum m.a. til Suður-Afríku þrjú saman árið 2011 þar sem dvalið var á golfsvæði og Bjössi var sá eini sem lék golf á þeim tíma. Hann var reyndar alltaf að ýta því að okkur að koma og prófa en við snerum okkur bara við í sólbaðinu og létum þetta sem vind um eyru þjóta.“

Ragnheiður Ragnarsdóttir. Mynd/seth@golf.is
Ragnheiður Ragnarsdóttir. Mynd/seth@golf.is

Hulda: „Í ágúst árið 2011 gerðist það að vinnufélagar mínir í TVG Zimsen hálfpartinn píndu mig í fyrirtækjamót í Bakkakoti. Ég sagði að þau væru rugluð að reyna þetta þar sem ég hefði ekki einu sinni áhuga á að fara í golf með manninum mínum. Ég lét undan hópþrýstingnum og fór í Texas Scramble mót með þeim. Það var bara ótrúlega skemmtilegt og það gerðist eitthvað á þeim degi sem ég get ekki útskýrt. Ég tryggði liðinu mínu sigur á lokaholunni með því að setja niður langt pútt. Og ég kom mjög ánægð heim.“

Ég lét undan hópþrýstingnum og fór í Texas Scramble mót með þeim. Það var bara ótrúlega skemmtilegt og það gerðist eitthvað á þeim degi sem ég get ekki útskýrt. Ég tryggði liðinu mínu sigur á lokaholunni með því að setja niður langt pútt. Og ég kom mjög ánægð heim.


Ragnheiður: „Ég byrjaði ekki fyrr en ég fékk þau skilaboði frá Huldu og Bjössa að ég þyrfti að byrja í golfi til þess að fá að „hanga“ með þeim. Allt á léttu nótunum samt en ég tók þessari áskorun og byrjaði bara á því að mæta í golfmót á Siglufirði. Hulda og Bjössi komu í heimsókn norður á Siglufjörð þar sem Hulda ætlaði að taka þátt í kvennamóti. Ég var búin að öngla saman alls konar golfdrasli úr bílskúrum bæjarins fyrir mig. Eldgamalt dót sem enginn vildi nota. Ég mætti síðan út á Hólinn þar sem golfvöllurinn er og þar var markmiðið að slá nokkra bolta og fá leiðbeiningar frá Bjössa. Eftir að hafa slegið þrjá bolta horfði ég á Bjössa og sagði að þessu myndi ég ekki nenna. Ég ákvað að vera bara með í mótinu og mætti á teig með nokkrum konum sem þar voru. Ég tók Bjössa með mér og hann var titlaður sem leiðbeinandinn í þessum ráshóp. Þær héldu að ég væri alveg búinn að missa vitið og Bjössi hristi bara hausinn af undrun. Ég hitti boltann ekki oft á þessum fyrsta golfhring og vissi í raun ekkert hvað ég var að gera. Þegar við komu á 8. braut þurfti ég að vippa inn á flötina af um 20 metra færi. Ég vissi ekkert hvernig ég átti að gera þetta en ég sló, boltinn fór beint á flaggið og ofan í holuna. Fagnaðaröskrin frá mér bergmála eflaust enn í fjöllunum við Siglufjörð, þvílík tilfinning, og á þessu augnabliki fékk ég golfdellluna. Í kjölfarið fór Bjössi að safna saman aðeins betra golfdóti fyrir mig. Hann keypti m.a. aftur gamlan golfpoka sem hann hafði selt áður og ég fékk gamla kerru og gamlar kylfur. Ég tók síðan bara þátt í öllum mótum sem hægt var að keppa á og fór á bólakaf í þetta. Fólk hélt að ég væri stórskrítin að byrja svona en mér var alveg sama. Ég var í þessu á mínum forsendum og ætlaði að skemmta mér við þetta.“

Fagnaðaröskrin frá mér bergmála eflaust enn í fjöllunum við Siglufjörð, þvílík tilfinning, og á þessu augnabliki fékk ég golfdellluna.

Hulda Alfreðsdóttir. Mynd/seth@golf.is
Hulda Alfreðsdóttir. Mynd/seth@golf.is


Hulda: „Þegar golfið hittir mann svona af krafti þá fer maður alla leið í þessu. Ég fór t.d. í verslunarferð í golfbúð þar sem ég ætlaði að kaupa eitt par af golfskóm. Ég fór út með allt sem ég þurfti í golfið, golfsett, kerru, fatnað og eitthvað meira. Ef maður getur ekkert í golfinu þá er mjög auðvelt að líta alla vega út fyrir að geta eitthvað,“ segir Hulda og hlær.

Ef maður getur ekkert í golfinu þá er mjög auðvelt að líta alla vega út fyrir að geta eitthvað,“ segir Hulda og hlær

Ragnheiður: „Ég fékk ekki mikla kennslu eða leiðbeiningar þegar ég fór af stað og ég er að gera alls konar vitleysu sem hefði verið hægt að laga strax í upphafi. Ég hef hins vegar farið í alvöru mælingu hjá sérfræðingi í golfbúð hvað varðar kylfurnar. Ég mætti á svæðið og sagðist vilja fara í mælingu eins og einhver sérfræðingur í þessu sporti. Starfsmaðurinn spurði mig hvaða forgjöf ég væri með og ég svaraði því til að það væri eins og að spyrja konu um hæð og þyngd. Ég mætti í mælinguna og var bara kófsveitt að slá í eitthvert net með 7-járninu. Það heyrðist ekkert í starfsmanninum í langa stund á meðan ég var að slá og ég var handviss um að hann væri bara á facebook. Hann svaraði því neitandi og sagði síðan að það þyrfti ekkert að breyta neinu hjá mér hvað kylfurnar varðar. Hann hefur eflaust ekki haft kjark til að segja sannleikann – að ég gæti ekkert í golfi.“

Hulda: „Það var furðulegt að upplifa að dreyma golf stuttu eftir að hafa byrjað í golfi. Eina nóttina hrökk ég upp í miðjum svefni þar sem ég var að dræva af krafti og slá boltann. Ég vakti bara Bjössa og sagði honum að mig væri farið að dreyma golf. Hann var bara sáttur við það og ég sé að hann brosir inni í stofu þegar við Ragnheiður erum að tala um golf við eldhúsborðið. Hann hafði lengi beðið eftir slíkri umræðu hjá okkur.“

Ragnheiður: „Við höfum gert alveg ótrúlega skemmtilega hluti saman frá því að við byrjuðum í golfinu, ferðast út um allt land og einnig til útlanda til þess að spila. Við eigum frábærar minningar frá þessum ferðalögum. Ég held ég hafi spilað um 20 velli á landinu nú þegar og margir eftir.

Árni Björn Birnuson slær hér af teig. Mynd/seth@golf.is
Árni Björn Birnuson slær hér af teig. Mynd/seth@golf.is


Vinkonurnar eru sammála um að félagsskapurinn og útiveran sé það sem heilli mest við golfið.

Ragnheiður: „Mér finnst ótrúlega gaman að spila með skemmtilegu fólki. Hér í GKG var vel tekið á móti mér og ég skrái mig bara með hverjum sem er. Ef það er laust í þriggja manna ráshóp þá fer ég bara með. Ég læt ekkert stoppa mig. Það hefur oft komið fyrir að ég lendi í hóp strákum með lága forgjöf, alveg niður í 2, og það hefur bara verið skemmtilegt. Þeir eru ekkert að pirra sig á því að ég sé með þeim og þeir hrósa fyrir góð högg og slíkt. Ég hef aldrei lent í því að upplifa það að vera ekki velkomin. Ég skil reyndar ekki af hverju þeir sem eru svona góðir greiði fullt gjald því þeir nota völlinn lítið sem ekkert og slá fá högg – alla vega miðað við mig.“

Hulda: „Umræðuefnið sem skapast í kringum kylfinga eru óþrjótandi og það er alltaf hægt að finna eitthvað til að spjalla um. Mér leið ekki vel í upphafi að spila með ókunnugu fólki en það breyttist þegar ég spilaði með eldri manni sem var fyrrverandi flugstjóri. Hann var með okkur Bjössa í ráshóp og ég var með hnút í maganum fyrir hringinn og gekk ekki vel á fyrstu holunum. Hann sá að mér leið ekki vel. Hann sagði mér að vera ekkert að stressa mig á þessu. „Við byrjuðum öll einhvern tímann í golfi og láttu þetta aldrei trufla þig,“ sagði hann. Ég gleymi þessum orðum ekki.“

Við byrjuðum öll einhvern tímann í golfi og láttu þetta aldrei trufla þig,“ sagði hann. Ég gleymi þessum orðum ekki.

Ragnheiður er meira fyrir að keppa í golfi en Hulda mætir af og til í mót þegar þannig liggur á henni.

Ragnheiður: „Mér hefur gengið vel að undanförnu, sigraði í mínum flokki á meistaramóti GKG og einnig á Íslandsmóti +35 í Vestmanneyjum. Ég hef haft mikið fyrir þessu og ég þarf að fara til golfkennara til að ná lengra. Ég skrái nánast alla hringi og forgjöfin getur varla verið réttari hjá mér. Mér sárnaði mikið í golfferð á Spáni þar sem ég var sögð vera forgjafarsvindlari eftir að hafa leikið flesta hringina á 39-42 punktum. Það var varla klappað við verðlaunaafhendingu á lokamótinu í þessari ferð og mér fannst þetta skrítið hugarfar. Fararstjórinn í þessari ferð gerði síðan vel að slökkva þessa umræðu en þetta var óþarfi.“

Hulda: „Ég fer ekki eins mikið í mótin og Ragnheiður. Mér líður bara vel með það sem ég er að gera. Eina sem ég sé eftir er að hafa ekki gefið þessari frábæru íþrótt tækifæri fyrr, en það var kannski ekki mikill tími sem ég hafði áður á meðan börnin voru yngri. Núna hef ég meiri tíma og ég nýti þann tíma bara enn betur.“

Eina sem ég sé eftir er að hafa ekki gefið þessari frábæru íþrótt tækifæri fyrr.

Ragnheiður: „Ég er sammála Huldu með að hafa ekki gefið þessu tækifæri fyrr. Ég var með fullt af fólki í kringum mig sem spilaði golf. Ég kveikti bara ekki á perunni en það þýðir ekkert að velta því fyrir sér. Ég er að upplifa frábæra tíma núna og það er aldrei of seint að byrja.“

Björn Steinar Stefánsson. Mynd/seth@golf.is
Björn Steinar Stefánsson. Mynd/seth@golf.is
Hulda Alfreðsdóttir, Ragnheiður Ragnarsdóttir. Mynd/seth@golf.is
Hulda Alfreðsdóttir, Ragnheiður Ragnarsdóttir. Mynd/seth@golf.is
Hulda Alfreðsdóttir. Mynd/seth@golf.is
Hulda Alfreðsdóttir. Mynd/seth@golf.is
_mg_2941
Ragnheiður Ragnarsdóttir. Mynd/seth@golf.is
_mg_3028
Björn Steinar Stefánsson. Mynd/sethgolf.is
_mg_2996
Jónas Jónasson og Björn Steinar Stefánsson. Mynd/seth@golf.is
_mg_2983
Árni Björn Birnuson. Mynd/seth@golf.is
_mg_2982
Árni Björn Birnuson. Mynd/seth@golf.is
_mg_2929
Árni Björn Birnuson. Mynd/seth@golf.is
_mg_2906
Björn Steinar Stefánsson. Mynd/seth@golf.is
_mg_2902
Björn Steinar Stefánsson. Mynd/seth@golf.is

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ