Auglýsing

I gær tilkynnti ríkisstjórn Íslands að til stæði að hefja þann 4. maí tilslökun á samkomubanninu sem staðið hefur yfir hér á landi vegna Covid-19 veirunnar frá 13. mars.

Banninu verður aflétt í áföngum og að óbreyttu geta íþróttafélög hafið æfingar utanhúss með ákveðnum takmörkunum frá og með mánudeginum 4. maí.

Fjöldasamkomur eru takmarkaðar við 50 manns til að byrja með en lagt er til að þær verið síðan miðaðar við 2.000 manns að hámarki út ágústmánuð.

„Við í golfíþróttinni erum mjög ánægð með þessar fréttir og þær tillögur sem kynntar voru,“ segir Haukur Örn Birgisson, forseti Golfsambands Íslands í samtali við Morgunblaðið.

Haukur Örn Birgisson forseti GSÍ.

„Eins og þetta horfir við mér er fyrst og fremst verið að slaka á taumnum þegar kemur að allri íþróttaiðkun utandyra. Golfíþróttin hefur sjaldan verið talin mikil snertiíþrótt og þær tillögur sem kynntar voru leiða að stórum hluta til þess að hægt verði að leika golf undir nánast eðlilegum kringumstæðum.

Ólíkt öðrum íþróttagreinum þá höfum við í golfinu verið nokkuð heppin svona miðað við aðstæður. Tímabilið okkar fer í raun ekki almennilega af stað fyrr en í maí og 11. apríl heimilaði heilbrigðisráðuneytið okkur að stunda golfið undir ströngum ófrávíkjanlegum reglum. Við
þolum því alveg að leika undir þeim þangað til annað kemur í ljós.“

Aldrei meira golf en í sumar

Haukur Örn er mjög bjartsýnn á golfsumarið og bindur miklar vonir
við það. Þá á hann ekki von á því að mótum verði aflýst eða frestað vegna kórónuveirunnar.

„Allt mótahald GSÍ er því óbreytt þar til
annað kemur í ljós“

„Ég tel að sumarið í ár eigi eftir að verða frábært og ég geri fastlega ráð fyrir því að golfiðkun verði aldrei meiri en í sumar. Vegna almennra ferðatakmarkana í heiminum í dag er nokkuð ljóst að Íslendingar munu ferðast innanlands og nýta sér þar af leiðandi hina fjölmörgu golfvelli sem á landinu.

Hvað varðar mótahald og annað þá höfum við ekki tekið neina ákvörðun um að fresta eða fella niður mót og við munum ekki gera það nema nauðsyn krefji. Eins og staðan er í dag ætlum við ekki að taka einhverjar langtímaákvarðanir heldur munum við taka allar ákvarðanir er snúa að mótahaldi á réttum forsendum þegar að því kemur. Allt mótahald GSÍ er því óbreytt þar til annað kemur í ljós,“ sagði Haukur.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ