– Hjónin Sigurður Sigurðsson og Ingibjörg Eiríksdóttir skemmta sér vel saman í golfíþróttinni
Sigurður og Ingibjörg fá útrás fyrir keppnisskapið í golfinu. Golf á Íslandi fylgdist með þeim hjónum í skemmtilegri keppni þeirra á milli á El Plantio sem er vinsælt golfsvæði á Spáni rétt við flugvöllinn í Alicante. Viðtalið var birt í 4. tbl. Golf á Íslandi sem kom út í september s.l.
Viðtalið var tekið á æfingasvæðinu á El Plantio þar sem Sigurður var að slá úr sér „hrollinn“ og ná tökum á upphafshöggunum. Ingibjörg var ekkert að stressa sig á æfingasvæðinu og gaf sér meiri tíma í að svara spurningunum á meðan Sigurður var að fínpússa sveifluna.
Sigurður er 57 ára verkfræðingur og Ingibjörg 56 ára hjúkrunarfræðingur. Þau eru félagsmenn í Golfklúbbi Reykjavíkur og Golfklúbbi Öndverðarness.
Upphafið – hvenær byrjuðu þið í golfi?
Ingibjörg: „Ég viðurkenni það alveg að mér fannst golfið ekkert spennandi þegar ég fór með Sigurði í fyrsta sinn að prófa. Ástæðan var einföld. Ég gat ekkert. Væntingarnar voru þær að golf væri auðveld íþrótt. Ég reyndi því að koma mér undan því að byrja aftur en Sigurður sá við mér. Hann gaf mér golfsett í jólagjöf og ég fór í golfkennslu árið 2006 hjá Björgvini Sigurbergssyni. Það var góður andi sem sveif þar yfir, mér leið vel og þetta var góð leið til að byrja í golfinu,“ segir Ingibjörg en hún man eftir högginu sem varð til þess að golfið varð áhugavert.
„Ég var á golfvellinum við Ljósafoss. Ég var bara að prófa með góðum vinum okkar. Þar hitti ég svakalega gott högg með 3-trénu. Boltinn flaug af stað og það sló þögn á mannskapinn. Tilfinningin var góð og hvatti mig áfram. Frá þeim tíma hefur 3-tréð verið mín uppáhaldskylfa.“
Sigurður: „Ég byrjaði að vinna hjá Íslenskum aðalverktökum árið 2003. Ég sá strax að ég þyrfti að byrja í golfi ef ég ætlaði mér að vera með í kaffistofuspjallinu. Afrekskylfingurinn og Íslandsmeistarinn Björgvin Sigurbergsson var að vinna hjá fyrirtækinu á þessum tíma. Hann sá til þess að á vorin var starfsmönnum boðið í golfkennslu. Ég fór í þessa tíma hjá Björgvini og það kveikti áhugann.“
Hvað er það sem heillar við golfið?
Sigurður: „Það er gaman að hitta fólk og eyða tíma með því á golfvellinum. Ég þarf líka að hafa eitthvað við að vera – þetta áhugamál er sameiginlegt hjá okkur hjónum og það er mjög mikilvægt. Golfið er líka áskorun að gera betur. Ég lækkaði hratt eitt sumarið niður í 18 í forgjöf. Mig langar að fara neðar, 12-15 í forgjöf er tala sem ég hef hugsað mikið um. Það er aðeins farið að pirra mig að ná ekki framförum en ég veit að það er aðeins æfingin sem skilar árangri,“ segir Sigurður og heldur áfram að slá golfboltana á æfingasvæðinu.
Ingibjörg: „Hreyfingin er mikilvægur þáttur fyrir mig. Við mælum alltaf hvað við náum að ganga á einum golfhring. Göngutúrinn er á bilinu 8-11 km og það er heilmikið. Veðrið stoppar okkur ekki, við leikum í flestum veðrum, en hitastigið þarf að vera eitthvað nálægt 10 gráðum til að ég hafi gaman af því.“
Sigurður er með 18 í forgjöf og Sigríður er með 23 í forgjöf. Markmið beggja eru skýr. Að bæta leik sinn og ná betri tökum á golfinu.
Sigurður: „Á fyrstu árum okkar vorum við félagsmenn í Golfklúbbi Öndverðarness. Við lékum bara um helgar og það var ekki nóg til að ná framförum. Við gengum því einnig í Golfklúbb Reykjavíkur. Í fyrstu var markmiðið að geta spilað með öllum án þess að vera fyrir eða tefja leik. Smátt og smátt lækkaði forgjöfin og ánægjan varð meiri. Mér finnst gaman að leika með kylfingum sem eru með lægri forgjöf en ég. Þá verður einbeitingin meiri og ég legg mig meira fram.“
Ingibjörg: „Keppnin er mikilvæg fyrir mig og okkur bæði. Við leikum mikið saman og það er alltaf keppni okkar á milli. Við látum hvort annað heyra það og höfum gaman af þessu. Leikurinn verður allt öðruvísi með keppni. Það er alltaf eitthvað í húfi í hverju höggi og einbeitingin verður meiri.“
Sigurður og Ingibjörg segja bæði að vel hafi verið tekið á móti þeim sem nýliðum í íþróttinni á sínum tíma
Ingibjörg: „Við byrjum í Öndverðarnesinu þar sem við þekktum marga. Það var í raun ekkert mál að byrja þar. Við fengum líka góð ráð frá fagfólki hvernig best er að byrja. Við slógum upphafshöggin úti á brautinni við fjarlægðarstikurnar. Styttum brautirnar töluvert og vorum ekkert smeyk við að tía boltann hvar sem er. Ég er í kvennagolfinu í GÖ en þar sem ég vinn vaktavinnu þá er erfitt fyrir mig að festa tíma í golfið á virkum dögum sérstaklega.“
Sigurður: „Punktakerfið hjálpar nýliðum að líða betur á vellinum þegar fyrstu skrefin eru tekin á stóra sviðinu. Við tókum bara boltann upp og hættum leik á holunni ef höggin voru að nálgast 10. Það er engin skömm að því. Stundum finnst mér byrjendur of feimnir við að taka boltann upp og fara á næsta teig.
Hjónin eru sammála því að það sé mikilvægt að fara til PGA-golfkennara strax í upphafi
Sigurður: „Ég fer reglulega til PGA-kennara og læt „stilla“ mig af. Gunnlaugur Elsuson hefur verið okkur afar hjálplegur.“
Ingibjörg: „Ég fékk nokkra tíma í jólagjöf í golfkennslu og það vildi svo skemmtilega til að tímarnir voru fyrir tvo. Sigurður nýtti sér það til hins ítrasta,“ segir Ingibjörg í léttum tón og gefur eiginmanninum auga á æfingasvæðinu.
Sigurður: „Ég vissi það ekki fyrr en eftirá. Það þarf að koma skýrt fram,“ bætir Sigurður við og þau hlæja bæði.
Golfíþróttin skipar stóran sess í lífi Sigurðar og Ingibjargar og þau sjá ekki eftir tímanum sem fer í golfið
Ingibjörg: „Fólk sem spilar ekki golf skilur ekki hvernig við nennum að eyða 4-5 klukkutímum í þessa íþrótt. Börnin okkar hafa líka minnst aðeins á þetta. En upplifun okkar á vellinum er önnur – okkur þykir þetta skemmtilegt og golfið sameinar svo margt sem við viljum gera.“
Sigurður: „Við eigum góða vini sem eru með okkur í þessu. Golfið sameinar okkur þar, við ferðumst saman og upplifum margt saman í golfinu. Við fylgdumst mikið með atvinnugolfinu á Golfstöðinni en það aðeins of mikið fyrir okkur. Truflaði heimilislífið og við höfum tekið aðeins frí frá því að undanförnu.“