Andri Þór Björnsson, GR, Bjarki Pétursson, GKB og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR stigu skref í átt að Evrópumótaröðinni með frábærum árangri á 2. stigi úrtökumótsins sem fram fór á fjórum keppnisvöllum á Spáni.
Aldrei áður hafa jafnmargir íslenskir karlkylfingar náð inn á lokaúrtökumótið fyrir sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.
Alls náðu fimm íslenskir kylfingar inn á 2. stigi úrtökumótsins fyrir Evrópumótaröð karla 2019. Og það er metfjöldi. Alls reyndu 11 íslenskir kylfingar við úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina í ár.
Keppt var á fjórum völlum samtímis á 2. stigi úrtökumótsins dagana 7.-10. nóvember.
Um 75 keppendur voru á hverjum velli fyrir sig og komust um 20 efstu áfram á lokaúrtökumótið eða 3. stigið sem fram fer 15.-20. nóvember á Lumine golfvellinum í Tarragona skammt frá Barcelona.
Frá því að byrjað var að stigskipta úrtökumótunum fyrir Evrópumótaröðina hafa aðeins tveir íslenskir kylfingar komist inn á lokaúrtökumótið. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG, hefur 14 sinnum komist inn á lokaúrtökumótið í 20 tilraunum. Björgvin Sigurbergsson, GK, komst einnig inn á lokaúrtökumótið eða 3. stigið árið 2001.
Alls hafa 30 íslenskir kylfingar reynt við úrtökumótið fyrir Evrópumótaröðina frá árinu 1985 þegar GR-ingarnir Sigurður Pétursson og Ragnar Ólafsson riðu á vaðið.
Desert Springs:
Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR, er að keppa í fjórða sinn á ferlinum á úrtökumótinu. Hann er nú þegar með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni sem er næsta deild fyrir neðan sjálfa Evrópumótaröðina. Með góðum árangri á 2. og 3. stigi úrtökumótsins gæti Guðmundur Ágúst komist alla leið inn á Evrópumótaröðina.
Andri Þór Björnsson, GR, er að keppa í fjórða sinn á ferlinum á úrtökumótinu. Hann er að leika í annað sinn á 2. stigi úrtökumótsins. Andri komst í gegnum 1. stigið í fyrstu tilraun árið 2016, hann féll hinsvegar úr leik á 1. stiginu 2017 og 2018. Andri er með keppnisrétt á Nordic Tour atvinnumótaröðinni á næsta tímabili.
Rúnar Arnórsson, GK, er að taka þátt í fyrsta sinn á ferlinum á úrtökumótinu. Hann komst í gegnum 1. stigið í fyrstu tilraun og hefur nú þegar tryggt sér keppnisrétt á Nordic Tour atvinnumótaröðinni á næsta tímabili. Rúnar komst ekki í gegnu 2. stig úrtökumótsins.
Staða og skor á Desert Springs:
Club de Bonmont, Tarragona:
Bjarki Pétursson, GKB, er að taka þátt í fyrsta sinn á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina. Hann tryggði sér nýverið keppnisrétt á Nordic Tour atvinnumótaröðinni og komst í gegnum 1. stigið á Evrópumótaröðinni í fyrstu tilraun.
Staða og skor á Club de Bonmont.
Haraldur Franklín Magnús, GR, tekur þátt í fjórða sinn á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina. Haraldur Franklín er nú þegar með keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni, næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Hann komst í gegnum 1. stigið á úrtökumótinu fyrir Evrópumótaröðina en hann er með 100% árangur á 1. stiginu. Þetta er því í fjórða sinn sem Haraldur Franklín fer inn á 2. stigið.
Alls féllu sex íslenskir kylfingar úr leik á 1. stigi úrtökumótsins. Axel Bóasson og Aron Snær Júlíusson eru með keppnisrétt á Nordic Tour mótaröðinni og Ólafur Björn Loftsson er með takmarkaðan keppnisrétt.
Eftirtaldir féllu úr leik á 1. stiginu og í sviganum er fjöldi tilrauna við úrtökumót Evrópumótaraðarinnar.
Ólafur Björn Loftsson, GKG (8), Axel Bóasson, GK (5), Aron Snær Júlíusson, GKG (2), Ragnar Már Garðarsson, GKG (1), Aron Bergsson, Svíþjóð (GKG) (1) og Dagbjartur Sigurbrandsson, GR (1).