Andri Már Óskarsson tók þátt á 1. stigi úrtökumótsins fyrir DP Evrópumótaröðina á Golf d’Hardelot vellinum í Frakklandi dagana 4.-7. okt.
Þetta er í fyrsta sinn sem Andri Már tekur þátt á úrtökumóti fyrir sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Andri Már, sem er í Golfklúbbi Selfoss, lék á 73-76-70 og komst ekki áfram inn á 2. stig úrtökumótsins.
Alls taka 10 kylfingar frá Íslandi þátt á úrtökumótunum fyrir DP Evrópumótaröðina á þessu ári.
Þetta er í annað sinn í sögunni þar sem að 10 kylfingar taka þátt – en það gerðist einnig árið 2019. Ekki var leikið á úrtökumótunum árið 2020 og 2021 vegna heimsfaraldurs.
Axel Bóasson, Aron Snær Júlíusson, Hákon Örn Magnússon, Kristófer Karl Karlsson, Sigurður Arnar Garðarsson, Kristófer Orri Þórðarson og Andri Már léku allir á 1. stiginu en komust ekki áfram inn á 2. stig úrtökumótsins.
Bjarki Pétursson lék einnig á 1. stiginu og komst áfram inn á 2. stigið. Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús taka þátt á 2. stigi úrtökumótsins sem fram fer á fjórum keppnisvöllum á Spáni í byrjun nóvember.
Smelltu hér fyrir nánari upplýsingar um úrtökumótin á DP Evrópumótaröðinni.