Andri Þór Björnsson, GR og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, eru báðir á meðal keppenda á Blot Open de Bretagne mótinu sem fram fer í Frakklandi dagana 23.-26. júní í Frakklandi.
Mótið er hluti af Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour, sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu. Keppt er á Golf Blue Green de Pléneuf Val André vellinum.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit.
Þetta er annað mótið á tímabilinu þar sem að Andri Þór fær tækifæri að keppa en hann er með takmarkaðan keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni. Í síðustu viku endaði Andri Þór í 46. sæti þar sem hann lék á pari vallar samtals á móti sem fram fór í Tékklandi. Andri Þór er í sæti nr. 212 á stigalista Áskorendamótaraðarinnar.
Guðmundur Ágúst hefur leikið á 7 mótum á tímabilinu og komist í gegnum niðurskurðinn á tveimur þeirra. Hann er í sæti nr. 134 á stigalista mótaraðarinnar.
Haraldur Franklín Magnús, GR, er ekki á meðal keppenda á þessu móti.