Fyrsta mótið af alls þremur á heimslistamótaröðinni fór fram um helgina hjá Golfklúbbi Mosfellsbæjar á Hlíðavelli.
Ísam-mótið var gríðarlega spennandi en Andri Þór Björnsson (GR) og Guðrún Brá Björgvinsdóttir (GK) stóðu uppi sem sigurvegarar.
Guðrún Brá og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR voru jafnar á -2 eftir 54 holur. Þær léku bráðabana um sigurinn og hafði Guðrún Brá betur eftir að þær höfðu leikið 6 holur í bráðabana. Ragnhildur Kristinsdóttir (GR) varð þriðja á +10 samtals og Valdís Þóra Jónsdóttir (GL) varð fjórða á +12 samtals.
Andri Þór Björnsson lék hringina þrjá á -4 samtals og var einu höggi betri en Dagbjartur Sigurbrandsson (GR) sem var efstur fyrir lokahringinn. Heimamennirnir úr GM, Kristófer Karl Karlsson og Björn Óskar Guðjónsson voru jafnir í þriðja sæti á -2 samtals.
Sigurvegarar á Ísam mótinu 2020. Andri Þór Björnsson og Guðrún Brá Björgvinsdóttir.
Frá vinstri: Ragnhildur Kristinsdóttir, Guðrún Brá Björgvinsdóttir, Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, Pétur Óskar Sigurðsson frá Ísam og Kári Tryggvason formaður GM.
Frá vinstri: Kristófer Karl Karlsson, Björn Óskar Guðjónsson, Dagbjartur Sigurbrandsson, Pétur Óskar Sigurðsson frá Ísam og Kári Tryggvason formaður GM.