Andri Þór Björnsson, GR, heldur forystunni eftir annan keppnisdag á Egils-Gullmótsinu á Eimskipsmótaröðinni sem fram fer á Strandarvelli á Hellu um helgina. Andri Þór lék hringinn í dag á 71 höggi, einu höggi yfir pari, og er samtals á þremur höggum undir pari eftir tvo hringi.
Vindurinn gerði kylfingum nokkuð erfitt fyrir á Strandarvelli í dag, þannig að skor dagsins var ívið hærra en á fyrsta hring. Arnór Snær Guðmundsson, GHD, lék best allra í dag, fór hringinn á 68 höggum, tveimur höggum undir pari. Hann lyfti sér þar með upp í annað sætið og er á tveimur höggum undir pari, einu höggi á eftir Andra Þór.
Með þeim í síðasta ráshóp á morgun verður Ragnar Már Garðarsson, GKG, sem var á góðu skriði í dag, á tveimur höggum undir pari eftir fimmtándu holu. Hann fékk hins vegar skramba og skolla á sextándu og sautjándu, en paraði átjándu holuna og lék á 73 höggum í dag, er samtals á einu höggi yfir pari eftir hringina tvo.
Stutt er í næstu kylfinga þar fyrir aftan en Andri Már Óskarsson, GHR, Kristján Þór Einarsson, GM, og Henning Darri Þórðarson, GK, eru allir á tveimur höggum yfir pari eftir tvo hringi. Henning lék vel í dag og fór hringinn á 69 höggum, einu höggi undir pari.
Í kvennaflokki átti Karen Guðnadóttir, GS, besta hring dagsins. Hún lék annan daginn í röð á 75 höggum og tók þar með forystuna, er á tíu höggum yfir pari. Tveimur höggum á eftir henni eru Ingunn Einarsdóttir, GKG, Þórdís Geirsdóttir, GK, og Berglind Björnsdóttir, GR.
Hér að neðan eru svipmyndir frá Strandarvelli í dag.