Sigurður Elvar Þórólfsson – seth@golf.is skrifar frá Lumine
Ég náði markmiðinu mínu á 2. stigi úrtökumótsins og núna hef ég sett mér ný markmið fyrir lokaúrtökumótið,“ segir Andri Þór Björnsson atvinnukylfingur úr GR.
Andri Þór lék á pari vallar á 2. stigi úrtökumótsins á Desert Springs vellinum á Spáni. Hann tryggði sér áframhaldandi þátttöku með fugli á lokaholunni og framundan eru spennandi dagar á Lumine golfsvæðinu við Tarragona á Spáni.
Andri Þór hefur leikið á Nordic Tour atvinnumótaröðinni á undanförnum misserum og segir GR-ingur að svo virðist sem að allar æfingarnar á undanförnum mánuðum séu að skila árangri þegar mest á reynir.
„Ég er að uppskera aðeins núna eftir allt það sem ég hef lagt í þetta. Ég hef æft mjög vel og sjálfstraustið er meira. Ég lagaði aðeins sveifluna og stutta spilið hefur verið gott.“
Andri Þór tryggði sér keppnisrétt á lokaúrtökumótinu þar sem hann setti niður pútt fyrir fugli á lokaholunni til þess að sleppa við bráðabana um að komast á lokaúrtökumótið.
„Mótið á 2. stiginu byrjaði á frábærum degi, logn og tiltölulega þægilegur keppnisvöllur. Síðan fór þetta bara út í mikinn vind og eitthvað vesen. Var bara íslenskt veður á hröðum flötum. Það var mjög krefjandi.“
Andri Þór þekkir vel til á keppnisvöllunum á Lumine, en golfsvæðið hefur verið notað fyrstu mótum tímabilsins á Nordic Tour atvinnumótaröðinni.
„Keppnisvellirnir hér eru aðeins ólíkir, meira landslag á Hills en ég er samt að slá svipaðar vegalengdir inn á flatirnar eftir teighöggin. Flatirnar eru aðeins hægari hér en á 2. stiginu en það er meira „grain“ í flötunum hér og erfiðara að lesa í þær oft á tíðum.“
GR-ingurinn segir að lokum að hann leggi þetta mót upp eins og öll önnur mót.
„Planið breytist ekkert, hitta brautir og hitta flatir, og vonandi detta einhver pútt. Þannig legg ég þetta upp eins og öll önnur mót. Pabbi verður með mér á pokanum og hann hefur staðið sig eins og hetja í þessu og ég á honum mikið að þakka fyrir alla aðstoðina,“ sagði Andri Þór Björnsson.