Golfsumarið 2019 var kynnt með formlegum hætti í gær.
Hjá Golfklúbbi Kópavogs – og Garðabæjar fór fram PRO-AM boðsmót þar sem að afrekskylfingar tóku þátt ásamt fulltrúum frá ýmsum fyrirtækjum og samstarfsaðilum GSÍ.
Mótið tókst vel á Leirdalsvelli en völlurinn kemur vel undan vetri líkt og aðrir golfvellir landsins.
Keppnisfyrirkomulagið hvatti leikmenn til sóknargolfs og margir fuglar og ernir lágu í valnum eftir daginn.
Kynningarfundur með fjölmiðlum fór einnig fram í gær þar sem að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sem er í stjórn GSÍ og Ólafur Björn Loftsson aðstoðar afreksstjóri GSÍ fóru yfir það sem helst verður á baugi hjá GSÍ á golfsumrinu 2019.
Anna Sólveig Snorradóttir, GK og Ragnar Már Garðarsson, GKG, sigruðu í keppni afrekskylfinga í þessu móti.