/

Deildu:

Auglýsing

Ein stærsta íþróttastjarna allra tíma kemur til Íslands í júní á þessu ári. Það er engin önnur en Annika Sörenstam frá Svíþjóð, sem var á sínum tíma í sérflokki í atvinnugolfi í kvennaflokki. Annika er 47 ára gömul og hefur sigrað á 10 risamótum á ferlinum. Hún er þriðji sigursælasti kylfingurinn á LPGA Tour með 72 sigra og 17 sigra á LET Evrópumótaröðinni, þar sem hún er þriðji sigursælasti kylfingur allar tíma. Annika hætti í keppnisgolfinu árið 2008, þá aðeins 38 ára gömul. Þetta kemur fram í nýjasta tölublaði af Golf á Íslandi sem er á leið til kylfinga sem eru skráðir í golfklúbb.

Einn þekktasti íþróttamaður allra tíma

„Annika er ekki bara einn einn þekktasti kylfingur sögunnar, heldur er hún á meðal þekktustu nafna íþróttasögunnar. Til að mynda valdi ESPN íþróttatímaritið hana á meðal 20 bestu íþróttamanna veraldar á dögunum, en sá listi var gefinn út í tilefni af 20 ára afmæli íþróttarisans. Tiger Woods var efstur, en Annika var fyrst kvenna á listanum, í sjötta sætinu, á undan tenniskonunni Serenu Williams sem var næst kvenna á listanum í tólfta sæti, brasilísku knattspyrnukonunni Mörtu, körfuboltakonunni Lauren Jackson og frjálsíþróttakonunni Allyson Felix. Það er til marks um það hversu stórt nafn hún er í heimi íþróttanna,” segir Hulda Bjarnadóttir fjölmiðlakona, ein þeirra sem stendur að komu Anniku til landsins.

Annika hefur þegið boð um að koma til Íslands um miðjan júní, nánar tiltekið 10. og 11. júní. Viðburðir verða auglýstir síðar, en hún mun taka þátt í fundum og viðburðum er tengjast uppbyggingu golfíþróttarinnar hérlendis. „Það er Anniku hjartans mál að styðja við ungar konur í íþróttinni og mun hún hitta afreksfólk okkar hérlendis, auk þess sem hún mun hitta lykilfólk golfhreyfingarinnar,” segir Hulda um tilgang komu hennar.

Annika Sörenstam

Annika mun einnig halda fyrirlestra um hugarfar og markmiðasetningu og deila reynslu sinni um hvernig hún hefur náð þeim árangri sem raunin er, jafnt innan sem utan vallar. Árið 2008 hætti hún sem atvinnumaður í golfi og sneri sér þá að uppbyggingu golfakademíu í eigin nafn, alþjóðlegum golfmótum í eigin nafni, viðskiptum tengdum golfvallahönnun, hönnun fatalínu og fjármálaráðgjöf til íþróttamanna og íþróttafélaga.

„Mikill heiður og lyftistöng“

„Tímasetningin er frábær og það er ljóst að golfíþróttinni er sýndur mikill heiður að eitt stærsta nafnið í íþróttinni hefur áhuga á að koma til landsins. Það sýnir okkur um leið að fylgst er með kylfingunum okkar á meðal hinna bestu. Þetta eru skemmtilegir tímar sem við erum að upplifa og verður heimsókn Anniku án efa mikil lyftistöng til framtíðar,” segir Haukur Örn Birgisson forseti Golfsambands Íslands um komu Anniku.

Annika Sörenstam

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ