Auglýsing

Árið 2020 var einstaklega hagstætt Golfklúbbi Þorlákshafnar. Metaðsókn var á golfvöllinn, breyttur golfvöllur fékk mikið lof, félögum fjölgaði mikið og hagnaður klúbbsins hefur aldrei verið meiri. Þetta kom fram á aðalfundi golfklúbbsins sem haldinn var fyrir skömmu.

Metaðsókn var á golfvöllinn síðasta sumar og voru leiknir nokkuð yfir 14 þúsund hringir. Til samanburðar voru þeir um 8 þúsund árið 2019 og er aukningin því 76%.

Þá má nefna að fyrir einungis 5 árum, árið 2015 voru spilaðir hringir rétt um 4 þúsund. Fjölgun spilaðra hringja hefur því verið gríðarleg á síðustu árum.

Þessi aukna aðsókn má eflaust rekja til nýframkvæmda á vellinum, en talsverðar breytingar voru gerðar á árinu sem hafa mælst mjög vel fyrir.

Mikil vinna fylgir þessum framkvæmdum og samkvæmt verkbók unnu vallarstarfsmenn og félagar klúbbsins um eitt þúsund vinnustundir við nýframkvæmdir síðasta sumar. Völlurinn er orðinn betri og skemmtilegri og ekki má ekki gleyma því að Þorláksvöllur er sá völlur sem lengst er opinn árlega.

Ekki má þó gleyma að sveitarfélagið Ölfus hefur staðið vel við bakið á klúbbnum og án aðkomu þess væru þær breytingar sem unnið er að á golfvellinum ekki framkvæmanlegar.

Skráðir félagar í Golfklúbbi Þorlákshafnar eru 314 og fjölgaði þeim um 60% á milli ára.

Alls bættist við 51 fullgildur meðlimur og 67 meðlimur með aukaaðild við klúbbinn á síðasta ári.

Samsetning félaga í klúbbnum er með þeim hætti að um 45% er búsettur í Ölfusinu, en hinn hlutinn er að mestu frá höfuðborgarsvæðinu.

Sú fjölgun sem átti sér stað í klúbbnum á síðasta ári kemur jafnframt að miklu leiti af höfuðborgarsvæðinu.

Bæði barna- og unglingastarf golfklúbbsins gekk vel síðasta sumar. Talsverður fjöldi barna og unglinga reyndi fyrir sér í golfi og skipt var í hópa eftir árgöngum. Þá var einnig tekið á móti leikjanámskeiði þar sem mikill fjöldi krakka komu ásamt stjórnendum leikjanámskeiðsins og nutu þess að leika sér í golfi.

Kvennastarfið var einnig í miklum blóma og er konum að fjölga í klúbbnum.

Fjárhagsleg afkoma á árinu var góð, en alls varð um 7 milljón króna hagnaður af rekstri klúbbsins. Sá hagnaður verður notaður til að bæta golfvöllinn enn frekar auk þess sem hugur félaga stendur til að reisa golfskála sem myndi breyta allri aðstöðu klúbbsins til hins betra.

Lítill golfskáli hamlar mjög að fá stærri mót og heimsóknir hópa á golfvöllinn, en talsverð ásókn er í að koma með mót og hópa á völlinn.

Kröfur varðandi þjónustu á golfvöllum eru alltaf að aukast, aðstaða í golfskálanum er ekki í takt við þessar kröfur.

Í þeim efnum er nauðsynlegt að horfa til framtíðar, taka mið af þeirri þróun sem er í golfi, aðstöðu fyrir kylfinga, þróun í heimsóknum erlendra kylfinga og ýmsum fleiri þáttum.

Guðmundur Baldursson var endurkjörinn formaður klúbbsins, en aðrir með honum í stjórn eru Ingvar Jónsson, Magnús Joachim Guðmundsson, Magnús Ingvason og Þórunn Jónsdóttir sem kemur ný inn í stjórnina. Í varastjórn voru endurkjörin þau Ásta Júlía Jónsdóttir og Óskar Gíslason.

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ