Mikil spenna ríkir fyrir lokakeppnisdaginn á Íslandsmótinu í golfi 2024, bæði í kvenna – og karlaflokki. Þoka setti keppnishaldið aðeins úr skorðum í morgun – og fresta þurfi ræsingu um rúmlega 2 klukkustundir – og hófst keppni kl. 10.
Aron Snær Júlíusson, GKG, er efstur í karlaflokki á 12 höggum undir pari vallar en hann er með eitt högg í forskot á Gunnlaug Árna Sveinsson, GKG, og Aron Emil Gunnarsson, GOS.
Mótsmetið í karlaflokki gæti fallið á morgun en það er í eigu Bjarka Péturssonar, GKG, frá árinu 2020.
Gunnlaugur Árni lék best allra í dag eða á 63 höggum, 8 höggum undir pari vallar, og setti hann nýtt vallarmet- en ný vallarmet hafa verið sett alla þrjá keppnisdagana í karlaflokknum.
Alls eru 21 leikmaður í karlaflokki sem eru undir pari vallar samtals. Aron Snær varð Íslandsmeistari árið 2021 en hann er á 201 höggi (65-68-68).
Páll Birkir Reynisson, GR, er jafn í 4. sæti ásamt liðsfélaga sínum, Hákoni Erni Magnússyni, á 10 höggum undir pari vallar samtals.
Hin 16 ára gamla Eva Kristinsdóttir úr GM deilir efsta sætinumeð ríkjandi Íslandsmeistara í kvennaflokki, Ragnhildi Kristinsdóttur, GR. Þær eru báðar á -1 höggi undir pari vallar á 212 höggum. Hulda Clara Gestsdóttir, GKG, er þremur höggum á eftir á +2 samtals. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, er fjórða á +5 samtals, og Andrea Bergsdóttir, GKG, er í fimmta sæti á +6 samtals.
Eva lék á 69 höggum í dag eða -2 á meðan Ragnhildur lék á pari vallar eða 71 höggi
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Bjarki Pétursson, GKG, eiga mótsmetin á Íslandsmótinu í golfi.
Bjarki Pétursson, GKG, á mótsmetið í karlaflokki en hann lék á 13 höggum undir pari samtals á Hlíðavelli í Mosfellsbæ árið 2020. Hann lék hringina þrjá á 275 höggum (72-66-69-68) og sigraði með átta högga mun.
Ólafía Þórunn á mótsmetið í kvennaflokki. Hún lék á 11 höggum undir pari á Jaðarsvelli á Akureyri árið 2016 og sigraði með einu höggi en Valdís Þóra Jónsdóttir, GL, lék á -10 á því móti, sem er næst besta skor frá upphafi í kvennaflokki.
Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK, lék á -3 samtals árið 2019. Perla Sól Sigurbrandsdóttir, GR, lék á -1 á þremur keppnisdögum í Vestmannaeyjum árið 2022. Það eru þrjú bestu heildarskor Íslandsmeistara í kvennaflokki frá upphafi.
.