Sebastian Friedrichsen sigraði á Nordic League mótinu sem lauk í dag á Spáni. Mótið er var það þriðja í röðinni á GolfStar Winter Series og það fjórða hefst þann 3. mars í þessari viku á sama keppnisvelli.
Friedrichsen hafði betur í bráðabana um sigurinn en þrír kylfingar voru efstir og jafnir eftir 54 holur á -11 samtals.
Fjórir íslenskir kylfingar tóku þátt á þessu móti. Aron Snær Júlíusson (GKG), Axel Bóasson (GK), Ragnar Már Garðarsson (GKG) og Sigurður Arnar Garðarsson (GKG).
Mótin á Spáni eru hluti af GolfStar Winter Series – sem markar upphaf keppnistímabilsins á þessari atvinnumótaröð sem er í þriðja efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu.
Mótaröðin hefur reynst íslenskum kylfingum vel á undanförnum árum og opnað dyr inn á Áskorendamótaröðina (Challenge Tour).
Aron Snær, sem er ríkjandi Íslandsmeistari í golfi, endaði í 14. sæti á -4 samtals en hann byrjaði mótið mjög vel og var í toppbaráttunni eftir fyrstu tvo hringina.
Axel endaði í 37. sæti á +2 en hann náði að koma sér í gegnum niðurskurðinn með flottum öðrum hring.
Bræðurnir Sigurður Arnar og Ragnar Már Garðarssynir, náðu ekki að komast í gegnum niðurskurðinn.



