Site icon Golfsamband Íslands

Aron Snær klifrar upp heimslista áhugakylfinga og nálgast besta árangur allra tíma hjá íslenskum kylfingi

Aron Snær Júlíusson, GKG. Mynd/seth@golf.is

Aron Snær Júlíusson, Íslandsmeistari í golfi 2021, er í 122. sæti á heimslista áhugakylfinga sem er besti árangur hans á ferlinum. Aron Snær, sem er úr Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar, nálgast besta árangur allra tíma hjá íslenskum kylfingi á heimslista áhugakylfinga.

Heimslisti áhugakylfinga var settur á laggirnar árið 2007. Gísli Sveinbergsson, GK, náði að komast í sæti nr. 98 árið 2014 sem er besti árangur hjá íslenskum kylfingi frá árinu 2007.

Ólafur Björn Loftsson, GKG, komst í sæti nr. 115 á heimslista áhugakylfinga árið 2010 sem er næst besti árangur sem íslenskur áhugakylfingur hefur náð.

Axel Bóasson, GK, Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR og Haraldur Franklín Magnús, GR, náðu á sínum tíma að vera nálægt því að komast inn á topp 200 listann á heimslista áhugakylfinga.

Aron Snær var í sæti nr. 352 í upphafi ársins 2021. Hann hefur því farið upp um 220 sæti á þessu ári. Frá árinu 2019 hefur Aron Snær farið upp um rúmlega 700 sæti.

Á þessu ári fagnaði Aron Snær Íslandsmeistaratitlinum í golfi í fyrsta sinn og hann varð einnig í 5. sæti á Evrópumóti einstaklinga.

Exit mobile version