Aron Snær Júlíusson, Sigurður Arnar Garðarsson og Hlynur Bergsson hefja í dag leik á 1. stigi úrtökumótsins fyrir DP World Tour atvinnumótaröðina.
Alls er keppt á níu keppnisstöðum á 1. stigi úrtökumótsins haustið 2023 og alls verða átta íslenskir keppendur sem taka þátt að þessu sinni á 1. stigi úrtökumótsins.
Stigin á úrtökumótunum fyrir DP World Tour eru alls þrjú. Axel Bóasson, GK, fer beint inn á 2. stig úrtökumótsins og Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, fer beint inn í lokaúrtökumótið ef hann nær ekki að halda keppnisrétti sínum á DP World Tour í lok tímabilsins.
Aron Snær, Sigurður Arnar og Hlynur eru allir félagsmenn í Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar. Þeir keppa á Millennium golfvellinum rétt við borgina Brussel í Belgíu.
Það má gera ráð fyrir að um 20 efstu af hverjum velli fyrir sig komist áfram á 2. stig úrtökumótsins.
Þetta er í fjórða sinn sem Aron Snær reynir sig við 1. stig úrtökumótsins en hann tók fyrst þátt árið 2017 og komst þá inn á 2. stig úrtökumótsins. Hann tók einnig þátt árið 2019 og 2022 en komst ekki í gegnum 1. stigið.
Sigurður Arnar lék í fyrra í fyrsta sinn á 1. stigi úrtökumótsins en komst ekki áfram.
Hlynur er að taka þátt í fyrsta sinn á úrtökumóti fyrir þessa mótaröð.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit.
Böðvar Bragi Pálsson, GR, keppir á 1. stigi úrtökumótsins dagana 12.-15. september á Arlandastad golfvellinum í Svíþjóð.
Dagana 13.-16. september verða fjórir íslenskir keppendur á 1. stigi úrtökumótsins á Golfclub Schloss vellinum í Austurríki. Keppendurnir eru Hákon Örn Magnússon (GR), Haraldur Franklín Magnús (GR), Andri Þór Björnsson (GR), og Bjarki Pétursson (GKG).
Axel Bóasson, GK, fer beint inn á 2. stig úrtökumótins en þar verður keppt á fjórum völlum á Spáni dagana 2.-5. nóvember.
Lokaúrtökumótið fer fram á Infinitum völlunum við Tarragona á Spáni dagana 10.-15. nóvember. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GKG, fer þar inn ef honum tekst ekki að halda keppnisrétti sínum á þessu tímabili á DP World Tour