Axel Bóasson úr Keili og Haraldur Franklín Magnús úr GR voru báðir á meðal 10 efstu á Barsebäck Resort meistaramótinu sem fram fór um helgina í Svíþjóð. Mótið er hluti af Nordic Tour atvinnumótaröðinni. Andri Þór Björnsson úr GR komst ekki í gegnum niðurskurðinn.
Axel endaði í 5. sæti á -3 samtals en hann lék alla þrjá hringina á sama skorinu (72-72-72). Axel var að leika á sínu 8 móti á tímabilinu og er þetta besti árangur hans á mótaröðinni. Hann endaði í 9. sæti á móti í byrjun maí og er hann í 41. sæti stigalistans þessa stundina. Axel sigraði á þessari mótaröð árið 2017 þar sem hann sigraði á tveimur mótum. Hann fékk í kjölfarið keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni sem er næst sterkasta atvinnumótaröðin í Evrópu.
Haraldur Frankín Magnús lék á pari vallar samtals en hann var líkt og Axel á sama skorinu alla þrjá keppnisdagana (73-73-73).Haraldur er í 18. sæti á stigalistanum á Nordic Toyr. Hans besti árangur á tímabilinu er 5. sæti og á þessu móti var hann á meðal þeirra 10 efstu í þriðja sinn á tímabilinu.
Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR er í 5. sæti á stigalista Nordic Tour. Fimm efstu sætin tryggja keppnisrétt á Áskorandamótaröðinni í lok keppnistímabilsins. Guðmundur Ágúst sigraði á móti um miðjan febrúar en hann hefur tvívegis verið á meðal 10 efstu og tvívegis endað í 13. sæti.
Andri Þór Björnsson úr GR er í 107. sæti á stigalistanum 2019 á Nordic Tour. Hans besti árangur er 24. sætið.