Axel Bóasson, GK, er á meðal keppenda á næst síðasta móti tímabilsins, MoreGolf Mastercard Tour Final á Nordic atvinnumótaröðinni sem hófst í gær á PGA Sweden National vellinum í Svíþjóð.
Smelltu hér fyrir rástíma, stöðu og úrslit.
Axel lék vel fyrstu tvo keppnisdagana og er í 4. sæti á 7 höggum undir pari (68, 69) fyrir lokahringinn og er 5 höggum á eftir Dananum John Axelsen sem er efstur á 12 höggum undir pari. Lokahringurinn fer fram á morgun, 14. október. August Thor Høst er jafn í 2. sæti en móðir hans er íslensk.
Nordic mótaröðin er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu. Lokakafli tímabilsins er í fullum gangi en eitt mót er eftir á tímabilinu að þessu móti loknu.
Aðeins 50 stigahæstu keppendur á stigalista mótaraðarinnar eru með keppnisrétt á þessu móti.
Fimm stigahæstu keppendur á stigalista Nordic Tour fá í lok tímabilsins keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni, Challenge Tour. Axel Bóasson, Guðmundur Ágúst Kristjánsson og Haraldur Franklín Magnús, hafa allir náð að komast í hóp 5 efstu á stigalista mótaraðarinnar og fengið tækifæri á Áskorendamótaröðinni í kjölfarið.
Axel er í 15. sæti stigalistans á Nordic Tour. Hann hefur leikið á 17 mótum á þessu tímabili. Hann hefur sigrað á einu móti á tímabilinu og er með 18582 stig.