Axel Bóasson úr Keili komst í gegnum niðurskurðinn að loknum öðrum keppnisdegi af alls þremur á Nordic League atvinnumótaröðinni á Spáni. Íslandsmeistarinn í holukeppni 2015 og stigameistari Eimskipsmótaraðarinnar lék á 74 höggum í dag eftir að hafa leikið fyrsta hringinn á 75 höggum. Hann er samtals á +6 og er í 46. sæti ásamt fleiri kylfingum.
Þetta er annað mótið á tímabilinu hjá Axel á þessari mótaröð sem er samstarfsverkefni golfsambanda á Norðurlöndunum. Axel náði ekki að komast í gegnum niðurskurðinn á fyrsta mótinu sem fram fór í síðustu viku. Hann mun leika á alls fjórum mótum í þessari keppnistörn en Nordic League atvinnumótaröðin er í hópi mótaraða í Evrópu sem flokkast í þriðja styrkleikaflokk.