Axel Bóasson, atvinnukylfingur úr GK, sigraði í dag á Rewell Elisefarm atvinnumótinu sem fram fór á Elisefarm golfvellinum í Svíþjóð. Mótið er hluti af Nordic Tour atvinnumótaröðinni og tóku alls fimm íslenskir keppendur þátt.
Nordic Tour er í þriðja styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu og er að mestu leikið á völlum á Norðurlöndunum.
Mótaröðin getur opnað dyr inn á Áskorendamótaröðina, ChallengeTour, sem er í næst efsta styrkleikaflokki atvinnumótaraða í Evrópu – þar sem að Haraldur Franklín Magnús og Guðmundur Ágúst Kristjánsson eru með keppnisrétt eftir að hafa náð frábærum árangri á Nordic Tour.
Axel Bóasson, GK, hefur einnig komist inn á Áskorendamótaröðina með frábærum árangri á þessari mótaröð. Axel, sem er þrefaldur Íslandsmeistari í golfi, var í efsta sæti mótsins fyrir lokahringinn en hann lék samtals á 7 höggum undir pari og sigraði með tveggja högga mun. Axel lék fyrstu tvo hringina á 68 höggum og var samtals á -8 fyrir lokahringinn. Axel lék lokahringinn á 73 höggum eða einu höggi yfir pari.
Þetta er í þriðja sinn sem Axel sigrar á móti á Nordic Tour mótaröðinni. Hann sigraði á tveimur mótum árið 2017 og varð að lokum stigameistari mótaraðarinnar. Sá árangur tryggði honum keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni árið 2018.
Á þessu tímabili hefur Axel keppt á 7 mótum á Nordic Tour. Hann hafði fyrir þetta mót komist í gegnum niðurskurðinn á fimm mótum og besti árangur hans var 19. sæti. Með sigrinum fór Axel upp í 8. sæti stigalistans á Nordic Tour – en fimm efstu sætin á stigalistanum í lok keppnistímabilsins opna dyrnar inn á Áskorendamótaröðina, ChallengeTour.
Stigalistinn í heild sinni – smelltu hér:


Bjarki Pétursson, GKG, sem varð Íslandsmeistari árið 2020, lék á pari vallar samtals á þremur keppnishringjum og endaði hann í 19. sæti. Bjarki, varð Íslandsmeistari árið 2020, lék hringina þrjá á 69-74-73 höggum.
Aron Snær Júlíusson, GKG, og ríkjandi Íslandsmeistari í golfi, var lengi vel í toppbaráttunni en hann endaði á pari vallar samtals líkt og Bjarki. Aron deildi því 19. sætinu með Bjarka og fleiri kylfingum þar sem hann lék á 69-74-73.


Böðvar Bragi Pálsson, GR, sem er fæddur árið 2002 og er enn áhugakylfingur, er með keppnisrétt á Nordic Tour, líkt og atvinnukylfingurinn Andri Þór Björnsson sem er einnig úr GR. Andri Þór lék fyrstu tvo keppnisdagana á 2 höggum yfir pari samtals og komst hann ekki í gegnum niðurskurðinn – þar sem hann var einu höggi frá því að komast áfram.
Böðvar Bragi var tveimur höggum frá niðurskurðinum eftir 2. keppnisdaginn en hann lék á +3 samtals.
Smelltu hér fyrir skor, rástíma og úrslit:

