Axel Bóasson sigraði á Borgunarmótinu á Eimskipsmótaröðinni sem lauk í dag. Mikil spenna var á lokahringnum í karlaflokknum og glæsilegt skor var hjá efstu kylfingum mótsins sem léku gríðarlega vel. Axel lék hringina þrjá á 205 höggum eða 8 höggum undir pari Hvaleyrarvallar. Gísli Sveinbergsson úr Keili og Alfreð Brynjar Kristinsson úr GKG léku báðir á -7 samtals.
Þetta er í fyrsta sinn sem keppt er um Hvaleyrarbikarinn sem er glæsilegur verðlaunagripur sem keppt verður um árlega á þessu móti.
„Það var mjög gott golf sem var spilað í dag og ég var ekki viss um hver staðan var. Þetta var frábært mót í alla staði og vel að þessu staðið hjá Keili, Golfsambandinu og mótsstjórninni. Þetta var gríðarlega skemmtilegt mót og ég væri til í að fá fleiri svona mót. Ég verð hér heima í júlí og það verður skemmtilegt að fara á Íslandsmótið í golfi á Akureyri. Ég er í góðu standi og hlakka til að takast á við það verkefni,“ sagði Axel en hann hefur einu sinni fagnað Íslandsmeistaratitlinum árið 2011 á Hólmsvelli í Leiru.
1. Axel Bóasson, GK (70-67-68) 205 högg – 8
2. Alfreð Brynjar Kristinsson, GKG (74-65-67) 206 högg -7
3. Gísli Sveinbergsson, GK (69-69-68) 206 högg -7
4. Haraldur Franklín Magnús, GR (73-71-67) 211 högg -2
5. Ólafur Björn Loftsson, GKG (74-66-71) 211 -2