Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék á 76 höggum eða +4 á lokahringnum á Fatima Bint Mubarak mótinu á LET Evrópumótaröðinni í Abu Dhabi. Ólafía var í fimmta sæti fyrir lokahringinn á þessari sterkustu mótaröð Evrópu en hún endaði í 26.-30. sæti á -7 samtals.
Besti árangur hennar á mótaröðinni er 16. sæti. Beth Allen frá Bandaríkjunum sigraði á -21 samtals en hún var í ráshóp með Ólafíu í dag.
Ólafía fékk um 640.000 kr. fyrir árangurinn í Abu Dhabi en alls hefur hún fengið um 1,5 milljónir kr. í verðlaunafé á tímabilinu. Ólafía Þórunn er í 105. sæti á styrkleikalista LET Evrópumótaraðarinnar eftir mótið í Abu Dhabi. Hún keppir næst á móti á Indlandi sem fram fer dagana 11.-13. nóvember.
3. keppnisdagur:
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék á +2 eða 74 höggum á þriðja keppnisdeginum á Fatima Bint Mubarak mótinu á LET Evrópumótaröðinni í Abu Dhabi. Ólafía Þórunn var með þriggja högga forskot í efsta sæti þegar keppni var hálfnuð en hún fékk alls fjóra skolla á hringnum í dag og tvo fugla.
Ólafía er í fimmta sæti fyrir lokahringinn á þessari sterkustu mótaröð Evrópu en Georgia Hall frá Englandi er efst á -15.
Árangur Ólafíu hefur svo sannarlega vakið mikla athygli en hún er að leika á sínum fyrsta tímabili á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Ólafía byrjaði frekar illa á hringnum í dag og fékk tvo skolla í röð á 1. og 2. braut og hún bætti þeim þriðja í safnið á 6. braut. Hún hristi það síðan af sér og fékk tvo fugla á 10. og 11. braut og var óheppinn að bæta ekki við fleiri fuglum í safnið. Púttin voru ekki að detta en hún er samt sem áður í góðum málum fyrir lokahringinn þar sem allt getur gerst.
Ólafía verður í næst síðasta ráshópnum á lokahringnum á laugardaginn og verður hægt að fylgjast með gangi mála á golf.is og bein útsending verður á Golfstöðinni og einnig á Youtube.
[pull_quote_right]Árangur Ólafíu hefur svo sannarlega vakið mikla athygli en hún er að leika á sínum fyrsta tímabili á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. [/pull_quote_right]
2. keppnisdagur:
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir heldur áfram að leika gríðarlega vel á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu á Fatima Bint Mubarak mótinu á LET Evrópumótaröðinni í Abu Dhabi. Íslandsmeistarinn úr GR gerði sér lítið fyrir og lék á 66 höggum á öðrum keppnisdegi mótsins líkt en hún lék á 65 höggum á fyrsta hringnum.
Mótið markar tímamót í sögu LET Evrópumótaraðarinnar því þetta er í fyrsta sinn sem keppt er í Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Ólafía er því samtals á 13 höggum undir pari vallar og er með þriggja högga forskot fyrir þriðja keppnisdaginn. Ólafía hóf leik í dag á 10. teig og hún sýndi mikið öryggi í leik sínum. Hún fékk alls sjö fugla og tapaði aðeins einu högg líkt og í gær. Í sjónvarpsútsendingu frá mótinu sást mjög vel að Ólafía átti enn fleiri möguleika á að bæta við fuglum á hringnum og hún var í einu orði sagt stórkostleg.
[pull_quote_right]Ólafía er því samtals á 13 höggum undir pari vallar og er með þriggja högga forskot fyrir þriðja keppnisdaginn. [/pull_quote_right]
Þetta er langbesti árangur sem íslenskur kylfingur hefur náð til þessa á sterkustu atvinnumótaröð Evrópu. Það eru tveir keppnisdagar eftir og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með Ólafíu á næstu tveimur keppnisdögum.
Fjórir kylfingar eru jafnir í 2.-5. sæti á -10, Georgia Hall, Gwladys Nocera , Beth Allen og Holy Cloburn
Alls eru 126 keppendur sem taka þátt á þessu móti sem er hluti af sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.
Sýnt verður frá mótinu á næstu tveimur dögum á Youtube rás LET Evrópumótaraðarinnar.
Frábær byrjun hjá Ólafíu í Abu Dhabi ı í efsta sæti á 65 höggum (-7)