Golfsamband Íslands

Birgir Leifur og Ólafía Þórunn Íslandsmeistarar í golfi 2016

Birgir Leifur Hafþórsson og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir. Mynd/seth@golf.is

Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG og Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR fögnuðu sigri á Íslandsmótinu í golfi á Eimskipsmótaröðinni 2016. Mótinu lauk í dag á Jaðarsvelli á Akureyri og var þetta í 75. sinn sem keppt er í karlaflokki og 50. sinn í kvennaflokki. Mikill fjöldi áhorfenda var á Jaðarsvelli á lokahringnum og nýttu sér frábæra þjónustu GA þar sem þráðlaust netsamband var á vellinu og gátu áhorfendur fylgst með beinni útsendingu á RÚV og lifandi skori á golf.is þegar spennan náði hámarki.

Birgir Leifur bætti met með því að sigra í sjöunda sinn og Ólafía Þórunn setti mótsmet með því að leika á -11 samtals. Þetta er þriðji titill Ólafíu frá upphafi en hún sigraði 2011 á Hólmsvelli í Leiru, 2014 á Leirdalsvelli og 2016 á Jaðarsvelli á Akureyri.

Keppni í karla og kvennaflokki var gríðarlega spennandi. Birgir setti niður pútt á 17. flöt fyrir fugli og kom sér í -8 á lokahringnum sem hann lék á 66 höggum eða -5. Sannarlega glæsilegur lokahringur og var Birgir Leifur einu höggi frá því að jafna vallarmetið sem Bjarki Pétursson úr GB setti á þriðja keppnisdeginum. Birgir Leifur var í þriðja síðasta ráshóp í karlaflokknum og sýndi mikinn styrk þegar mest á reyndi.  Hann fékk fjóra fugla á síðari 9 holunum og náði smátt og smátt að koma sér í kjörstöðu fyrir lokaholuna.

Axel Bóasson úr GK og Bjarki Pétursson úr GB fengu báðir tækifæri til þess að jafna við Birgi Leif þegar þeir léku tvær síðustu holurnar. Bjarki var hársbreidd frá því að fá fugl á 18. braut sem hefði tryggt umspil gegn Birgi um Íslandsmeistaratitilinn. Axel hafði síðan betur gegn Bjarkai á annarri holu í bráðabana um annað sætið. Bjarki lék allar 18 holurnar á lokahringnum á pari og er það án efa einstakt. Axel Bóasson var ansi nálægt því að fá fugl á 17. holuna og spennan var gríðarleg á lokahringnum.

Alls léku 12 kylfingar í karlaflokki undir pari vallar samtals og er þetta í fyrsta sinn í sögunni sem það gerist.

1. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG (69-70-71-66) 276 högg -8
2. Axel Bóasson, GK (71-67-69-70) 277 högg -7
3. Bjarki Pétursson, GB (72-69-65-71) 277 högg -7

„Þetta var mjög góður dagur hjá mér og ég hitti nánast allar flatir og var í fullt af færum. Ég náði ekki að nýta mér það fyrr en á seinni níu holunum. Það var gríðarlega góð tilfinning að sjá púttið á 17. flötinni fyrir fuglinum fara ofaní og þá vissi ég að ég ætti góða möguleika á sigri.  Þetta var ljúft og þetta mót var frábært, gríðarlega gaman að standa uppi sem sigurvegari eftir svona harða keppni. Breiddin er alltaf að aukast og það er frábært fyrir golfíþróttina á Íslandi að sjá hversu margir eru að skila inn góðum skorum á þessu móti,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson eftir hringinn í dag.

[pull_quote_right]Frábært fyrir golfíþróttina á Íslandi að sjá hversu margir eru að skila inn góðum skorum á þessu móti.[/pull_quote_right]

Axel Bóasson púttar hér á 17. flöt fyrir fugli á lokahringnum. Mynd/seth@golf.is
Axel Bóasson púttar hér á 17 flöt fyrir fugli á lokahringnum Myndsethgolfis

 

Bjarki Pétursson GB slær hér á 1 teig á Jaðarsvelli Myndsethgolfis

Magnaði mótsmet hjá Ólafíu Þórunni – jafnaði vallarmetið á lokahringnum 

Ólafía Þórunn lagði grunninn að sigrinum með mögnuðum kafla á fyrri 9 holunum þar sem hún fékk fimm fugla á sex holum og þar af fjóra í röð á 2., 3., 4., og 5. braut. Ólafía tapaði aðeins einu höggi á hringnum og lék á 66 höggum eða -5. Hún jafnaði þar með vallarmetið sem Valdís Þóra Jónsdóttir hafði sett á þriðja keppnisdeginum. Valdís fékk fugl á lokaholunni og minnkaði forskotið í tvö högg en það dugði ekki til og Ólafía fagnaði sigri á -11 samtals en Valdís Þóra var á -9 samtals. Þetta er í fyrsta sinn sem skor kvenna er betra en í karlaflokki og setti Ólafía nýtt mótsmet hvað varðar fjölda högga en fyrra metið var sett í fyrra þegar Signý Arnórsdóttir lék á +1 á Garðavelli á Akranesi.

1. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir , GR (70-68-69-66) 273 högg -11
2. Valdís Þóra Jónsdóttir, GL (71-69-66-69) 275 högg -9
3. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK (72-72-73-72) 289 högg +5

„Þetta var frábær dagur og þetta var eins og holukeppni á milli okka Valdísar . Pútterinn hjá mér var aðeins „heitari“ og það gerði útslagið. Ég náði frábærum kafla á fyrri 9 holunum þar sem mér leið vel á flötunum og mér fannst eins og öll pútt færu ofaní. Fjórir fuglar í röð og það breytti miklu. Það var frábært fyrir kvennagolfið að fá svona skor og harða keppni. Ég held að við séum búnar að taka miklum framförum og þetta var bara frábær sýning fyrir kvennagolfið á Íslandi. Þetta er besta skor hjá mér í keppni og ég er gríðarlega ánægð með þetta allt saman,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR.

[pull_quote_right]Það var frábært fyrir kvennagolfið að fá svona skor og harða keppni.[/pull_quote_right]

Birgir Leifur deildi metinu yfir fjölda titla með Úlfari Jónssyni og Björgvini Þorsteinssyni en þeir höfðu allir sigrað sex sinnum. Birgir Leifur á nú einn metið yfir fjölda titla en hann hefur sigrað alls sjö sinnum. Hann sigraði í fyrsta sinn árið 1996 þegar hann keppti fyrir Golfklúbbinn Leyni,  hann hefur sex sinnum sigrað sem félagi í GKG, 2003, 2004, 2010, 2013, 2014 og 2016. Þetta er sjöundi Íslandsmeistaratitill GKG frá upphafi í karlaflokki en Sigmundur Einar Másson varð Íslandsmeistari árið 2006.

Valdís Þóra Jónsdóttir GL slær hér á 15 teig á lokahringnum á Jaðarsvelli Myndsethgolfis

Lokastaðan:


Dagur 3: 
Gríðarleg spenna fyrir lokahringinn – Bjarki með nýtt vallarmet á Jaðarsvelli

Vallarmetin á Jaðarsvelli voru bætt þriðja daginn í röð á Íslandsmótinu í golfi á Eimskipsmótaröðinni. Bjarki Pétursson úr Golfklúbbi Borgarness lék best allra í dag eða á -5 og deilir hann efsta sætinu á -7 samtals með Guðmundi Ágústi Kristjánssyni úr GR sem lék einnig frábært golf dag en hann tapaði ekki höggi og lék á 66 höggum. Það voru margir aðrir kylfingar sem létu að sér kveða í dag og léku undir pari vallar. Axel Bóasson úr GK, hafði eitt högg í forskot fyrir hringinn í dag, en hann lék á 69 höggum eða -2 og er hann einu höggi á eftir efstu mönnum.

Það voru frábærar aðstæður á Jaðarsvelli í dag, logn og lítilsháttar úrkoma, og nýttu kylfingarnir sér aðstæðurnar til þess að leika frábært golf. Alls eru 13 kylfingar undir pari vallar sem er einstakt í sögu Íslandsmótsins í golfi. Mótsmetið er -12 en það setti Þórður Rafn Gissurarson úr GR í fyrra þegar hann fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli á Garðavelli á Akranesi.

„Ég byrjaði með flugeldasýningu og vippaði í fyrir erni á 2. braut og það kveikti aðeins í mér. Fékk góða fugla á næstu holum en um miðjan hringinn fór ég aðeins að hökta, missti tvö pútt, og fékk skolla. Það lagaðist og ég er virkilega sáttur við hringinn og vallarmetið. Ég tók þá ákvörðun í fyrra að draga mig aðeins frá og laga tæknina, hef unnið með Arnari Má Ólafssyni, þetta ferli er að klárast og ég er á réttri leið. Arnar hefur einnig bent mér á aðra hluti og ég sótti mun meira í dag eftir að hafa rætt við hann í gær. Ég var ekki að sækja af teig heldur í innáhöggunum og kom mér í góð færi. Það verður spennandi að takast á við lokahringinn en ég mæti bara með 3-járnið á 1. teig á morgun eins og áður og reyni að slá mitt besta golfhögg,“ sagði Bjarki Pétursson úr Golfklúbbi Borgarness.

Bjarki Pétursson slær hér á 7 teig á Jaðarsvelli í dag Myndsethgolfis

Það var góður sláttur hjá mér í dag. Ég kom mér í góð færi en setti ekki mörg pútt ofaní á fyrri 9 en var betri á síðari 9 holunum. Ég hitti 16 flatir í tilætluðum höggafjölda og þetta var bara góður hringur. Örvar Samúelsson, fyrrum klúbbmeistari GA, er aðstoðarmaður Guðmundar í mótinu og segir Guðmundur að það sé gott að hafa vin sinn á „pokanum“. „Við erum ekki að tala mikið um hvernig best sé að leika völlinn, við sjáum þetta svipað, og það er betra að hafa vin sinn á pokanum,“ sagði Guðmundur Ágúst Kristjánsson.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson úr GR slær hér á 7 teig í dag Myndsethgolfis

Staða efstu manna fyrir lokahringinn á Íslandsmótinu í golfi á Eimskipsmótaröðinni 2016:

Jaðarsvöllur, par 71.

Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR (72-68-66) 206 högg -7
Bjarki Pétursson, GB (72-69-65) 206 högg -7
Aron Snær Júlíusson, GKG (67-73-67) 207 högg -6
Axel Bóasson, GK (71-67-69) 207 högg -6
Andri Már Óskarsson, GHR (73-67-66) 208 högg -5
Haraldur Franklín Magnús, GR (71-71-67) 209 högg -4
Birgir Leifur Hafþórsson, GKG (69-70-71) 210 högg -3
Þórður Rafn Gissurarson, GR (71-71-69) 211 högg -2
Aron Bjarki Bergsson, GKG (70-72-69) 211 högg -2
Gísli Sveinbergsson, GK (72-67-72) 211 högg -2
Rúnar Arnórsson, GK (72-67-72) 211 högg-2
Andri Þór Björnsson, GR (72-73-67) 212 högg -1
Andri Þór Björnsson, GR (72-73-67) 212 högg -1
Alfreð Brynjar Kristinsson, GKG (71-72-70) 213 par

Valdís með vallarmet á Jaðarsvelli og stefnir í einvígi gegn Ólafíu á lokahringnum

Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni setti í dag nýtt vallarmet á Jaðarsvelli þegar hún lék á 66 höggum eða -5 á þriðja keppnisdegi Íslandsmótsins í golfi á Eimskipsmótaröðinni. Það stefnir í mikið einvígi á lokahringnum á milli Valdísar og Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur úr GR sem er einu höggi á eftir á -6. Valdís fékk fimm fugla í dag og tapaði ekki höggi en Ólafía lék á 69 höggum eða -2. Það er ljóst að nýtt mótsmet verður sett á Íslandsmótinu í golfi í kvennaflokki en Signý Arnórsdóttir lék samtals á +1 í fyrra á Garðavelli og bætti þá fyrra mótsmet töluvert.

„Þetta var stöðugur hringur hjá mér en ég setti ekkert svakalega mörg pútt ofaní. Lélegu höggin sköðuðu mig ekki eins mikið og áður og þetta var bara fínn hringur. Það voru mörg pútt sem ég hefði viljað setja ofaní en ég er sátt við fimm fugla og par á aðrar holur vallarins. Ég fer bara heim núna og þurrka settið og horfi á einhverja bíómynd og mæti síðan hingað aftur á morgun án þess að vera hugsa of mikið um framhaldið. Við erum að leika vel ég og Ólafía og skorið hjá okkur er á pari við það sem er að gerast í karlaflokknum. Við erum loksins að sýna hvað við getum gert, það vantar fleiri stelpur í golfið, og vonandi erum við að sýna að það er hægt að skora vel ef það er lögð mikil vinna í hlutina,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir en hún hefur tvívegis fagnað Íslandsmeistaratitlinum á ferlinum.

Valdís Þóra Jónsdóttir slær hér á 10 teig á Jaðarsvelli í dag Myndsethgolfis

Staða efstu kylfinga fyrir lokahringinn á Íslandsmótinu í golfi á Eimskipsmótaröðinni 2016:
Jaðarsvöllur par 71:

1. Valdís Þóra Jónsdóttir, GL (71-69-66) 206 högg -7
2. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR (70-68-69) 207 högg -6
3. Signý Arnórsdóttir, GK (77-68-71) 216 högg +3
4. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK (72-72-73) 217 högg +4
5. Anna Sólveig Snorradóttir, GK (75 -75-73) 223 högg +10
6. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR (77-76-73) 226 högg +13
7. Berglind Björnsdóttir, GR (75-75-77) 227 högg +14
8. Gunnhildur Kristjánsdóttir, GK (74-79-76) 229 högg +16

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir slær hér á teig á 15 braut Jaðarsvallar í dag Myndsethgolfis

Dagur 2: 

Axel með naumt forskot þegar keppni er hálfnuð – vallarmetið jafnað fimm sinnum

Það er gríðarleg spenna í karlaflokki á Íslandsmótinu í golfi á Eimskipsmótaröðinni. Annar keppnisdagurinn var magnaður þar sem að fjórir kylfingar jöfnuðu vallarmetið sem Aron Snær Júlíusson úr GKG setti í gær.

Axel Bóasson úr Keili er efstur á -4 samtals og er hann með eitt högg í forskot á Rúnar Arnórsson úr Keil, Gísla Sveinbergsson úr Keili og Birgi Leif Hafþórsson úr GKG. Axel varð Íslandsmeistari árið 2011 og hann fagnaði sigri á Íslandsmótinu í holukeppni í fyrra á Jaðarsvelli.

Rúnar Arnórsson (GK), Andri Már Óskarsson (GHR), Arnór Ingi Finnbjörnsson (GR), Gísli Sveinbergsson (GK) og Axel Bóasson (GK) léku allir á 67 höggum í dag og eru því sex kylfingar sem eiga vallarmetið á Jaðarsvelli. Keppni er ekki lokið í dag og það gætu því fleiri bæst í hópinn.

Aron Snær Júlíusson úr GKG sem var efstur eftir fyrsta hringinn lék á 73 höggum í dag. Birgir Leifur Hafþórsson

„Fannst ég vera að slá betur í dag en í gær, setti fleiri pútt ofaní í dag, það er í raun munurinn á fyrsta og öðrum keppnisdeginum. Ég vil vinna mótið og markmiðið er að spila mitt besta golf. Geðveikar aðstæður, veðrið frábært og þessi völlur hentar mér vel Mér líður alltaf vel hérna, fólkið er frábært hér í Golfklúbbi Akureyrar, hver púttar best, það er ekkert gefið á flötunum hérna. Axel á enn eftir að fá fugl á par 5 holu sem vekur óneitanlega athygli hjá þessum högglanga leikmanni.

Axel Bóasson slær hér á 15 teig á Jaðarsvelli í dag Myndsethgolfis
Rúnar Arnórsson slær hér á 7 teig í dag á Jaðarsvelli Myndsethgolfis
Birgir Leifur Hafþórsson lék slær hér á 13 braut í dag á Jaðarsvelli Myndsethgolfis
Gísli Sveinbergsson slær hér á 13 braut á Jaðarsvelli í dag Myndsethgolfis

1. Axel Bóasson, GK (71-67) 138 högg -4
2.- 4. Rúnar Arnórsson, GK (72-67) 139 högg -3
2.- 4. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG (69-70) 139 högg -3
2.- 4. Gísli Sveinbergsson, GK (72-67) 139 högg -3
5. -7. Andri Már Óskarsson, GHR (73-67) 140 högg -2
5. -7. Aron Snær Júlíusson, GKG (67-73)140 högg -2
5. -7. Guðmundur Ágúst Kristjánsson, GR (72-68) 140 högg -2
8. Bjarki Pétursson, GB (72-69) 141 högg -1
9.-12. Kristján Benedikt Sveinsson, GA (71-71) 142 högg
9.-12. Aron Bjarki Bergsson, GKG (70-72) 142 högg
9.-12. Þórður Rafn Gissurarson, GR (71-71) 142 högg
9.-12. Haraldur Franklín Magnús, GR (71-71) 142 högg

Ólafía með tveggja högga forskot – vallarmetið jafnað í tvígang á Jaðarsvelli í dag

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er með tveggja högg forskot þegar keppni er hálfnuð á Íslandsmótinu í golfi á Jaðarsvelli á Akureyri. Ólafía, sem tvívegis hefur fagnað þessum titli, jafnaði eigið vallarmet í dag og lék á 68 höggum eða -3. Hún er samtals á -4 en Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni kemur þar næst á -2 samtals en hún lék á 69 höggum í dag. Valdís hefur einnig fagnað Íslandsmeistaratitlinum tvívegis.

„Þetta var einfaldara í dag ég fékk 6 fugla og 25 pútt, Alfreð bróðir minn vann mig með einu í gær þegar hann var með 25 pútt. Ég vissi ekkert á hvaða skori ég var og var í mínum eigin hugarheimi. Ég fékk 6 högg á 10 braut sem er var lélegt og maður á ekki að fá skramba í golfi. Ég er á svipuðum stað í dag og ég ætlaði mér fyrir þetta mót en það er nóg eftir“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sem varð Íslandsmeistari 2011 og 2014.

„Ég var sáttiri í gær eftir hringinn í gær þegar ég náði að koma mér á parið en ég er ekki ánægð með hringinn í dag,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir sem lék á 69 höggum í dag eða -2. Hún byrjaði hringinn af miklum krafti og var hún þrjá undir pari eftir fjórar holur með tvo fugla og einn örn. „Eftir 7. holuna fór ég að slá léleg högg sem ég á ekki að slá, ég setti ekki pútt ofaní sem voru góð færi og þetta þarf ég að laga fyrir næstu daga. Það er nóg af golfi eftir og markmiðið er að koma sér í stöðu fyrir lokadaginn,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir sem varð Íslandsmeistari 2009 og 2012.
1. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir , GR (70-68) 138 högg -4
2. Valdís Þóra Jónsdóttir, GL (71-69) 140 högg -2
3. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, GK (72-72) 144 +2
4. Signý Arnórsdóttir, GK (77- 68) 145 högg +3
5.-6. Berglind Björnsdóttir, GR (75-75) 150 högg +8
5.-6. Anna Sólveig Snorradóttir, GK (75-75) 150 högg +8
7.-8. Gunnhildur Kristjánsdóttir, GK (74-79) 153 högg +11
7.-8. Ragnhildur Kristinsdóttir, GR (77-76) 153 högg +11
9.-10. Sunna Víðisdóttir, GR (78-77) 155 högg +13
9.-10. Helga Kristín Einarsdóttir, GK (76-79) 155 högg +13

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR púttar hér á 5 flöt í dag á Jaðarsvelli Myndsethgolfis
Valdís Þóra Jónsdóttir púttar hér á 5 flöt á Jaðarsvelli í dag Myndsethgolfis
Guðrún Brá Björgvinsdóttir vippar hér inn á 5 flötina á Jaðarsvelli Myndsethgolfis

Dagur 1.

Það var fjórfaldur Íslandsmeistari karla í golfi, Björgvin Sigurbergsson úr GK, sem opnaði mótið með því að slá fyrsta höggið en Björgvin er samt sem áður ekki keppandi á mótinu. Björgvin varð Íslandsmeistari í karlaflokki árið 2000 þegar mótið fór fram síðast á Jaðarsvelli.

Helgi Reynir Guðmundsson úr Golfklúbbnum Mostra sló fyrsta högg mótsins kl. 7.30.

Aron Snær með vallarmet og tveggja högga forskot

Aron Snær Júlíusson úr GKG er með tveggja högga forskot að loknum fyrsta keppnisdeginum á Íslandsmótinu í golfi á Eimskipsmótaröðinni. Aron setti nýtt glæsilegt vallarmet í dag á Jaðarsvelli á Akureyri þar sem hann lék á 67 höggum eða -4. Aron er með tveggja högga forskot á Birgi Leif Hafþórsson úr GKG og Vikar Jónasson úr Keili.

Þórður Rafn Gissurarson, Íslandsmeistari frá árinu 2015 lék á pari vallar, og það er útlit fyrir hörkuspennandi keppni á Jaðarsvelli allt fram á sunnudag þegar keppni lýkur.

„Þetta var gott í dag, ég sló eitt lélegt dræv á hringnum og bjargaði þar skolla. Annars var þetta gott golf, ég vippaði í fyrir erni á 15. af um 30 metra færi. Ég ætla mér að vera í toppbaráttunni á þessu móti og þessi hringur kemur mér ekkert á óvart því ég var að slá vel fyrir þetta mót. Jaðarsvöllur er geggjaður, frábærlega vel hannaður og ég er ánægður með völlinn,“ sagði Aron Snær Júlíusson úr GKG.

Aron Snær Júlíusson slær hér á 18 teig í dag á Jaðarsvelli Myndsethgolfis

„Ég var stöðugur í mínu golfi og sló mörg góð golfhögg. Ég var sáttur við hringinn, ég fékk fugl á 2. og 3., það er gott að fá fugl á 3. við þessar aðstæður sem voru í dag í mótvindi. Það var gott að byrja vel og ég hefði alveg getað gert aðeins meira en ég missti aðeins dampinn. Ég hélt mér inni með góðum vippum. Á 15. gerði ég mistök og þrípúttaði, sem er ekki gott á þessum velli, þar sem maður þarf að nýta sér vel par 5 holurnar,“ sagði Birgir Leifur Hafþórsson úr GJG sem er sexfaldur Íslandsmeistari í golfi. Birgir leikur í ráshóp fyrstu tvo keppnisdagana með Haraldi Franklín Magnús og Guðmundi Ágústi Kristjánssyni en þeir voru báðir í A-landsliði karla sem Birgir Leifur stýrði á Evrópumótinu fyrir tveimur vikum. „Það er skrítið að vera að keppa við þessa stráka í dag en þeir halda mér á tánum og ungum í anda. Þeir eru góðir vinir mínir og mér leiðist ekki þegar ég næ að slá upphafshöggin lengra en þeir,“ bætti Birgir við.

1. Aron Snær Júlíusson, GKG 67 högg -4
2. Vikar Jónasson, GK 69 högg -2
3. Birgir Leifur Hafþórsson, GKG 69 högg -2
4.-5. Andri Páll Ásgeirsson, GK 70 högg -1
4.-5. Aron Bjarki Bergsson, GKG 70 högg -1
6.-12. Eyþór Hrafnar Ketilsson, GA 71 högg
6.-12. Kristján Benedikt Sveinsson, GA 71 högg
6.-12. Henning Darri Þórðarson, GK 71 högg
6.-12. Alfreð Brynjar Kristinsson, GKG 71 högg
6.-12. Þórður Rafn Gissurarson, GR 71 högg
6.-12. Axel Bóasson, GK 71 högg
6.-12. Haraldur Franklín Magnús 71 högg

Vikar Jónasson Myndsethgolfis
Birgir Leifur Hafþórsson slær hér á 1 teig á Jaðarsvelli í dag Myndsethgolfis

Hörkuspenna í kvennaflokki

Það er útlit fyrir hörkukeppni í kvennaflokki á Íslandsmótinu í golfi sem hófst í dag á Jaðarsvelli á Akureyri. Það rigndi hressilega í morgun og fram eftir degi en keppendur létu það ekki hafa mikil áhrif á sig. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR er með eitt högg í forskot á Valdísi Þóru Jónsdóttur úr Leyni og Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr GK er tveimur höggum á eftir Ólafíu.

Ólafía og Valdís hafa báðar fagnað Íslandsmeistaratitlinum í tvígang en Guðrún Brá á eftir að fagna þessum stóra titli en keppt er um Íslandsmeistaratitilinn í kvennaflokki í 50. skipti í ár.

„Þetta var allt í lagi. Ég var rað spila ágætlega en það var erfitt að koma á flatirnar á seinni 9 holunum þær eru hægari. Ég var of stutt í nokkrum púttum, var í nokkrum fuglafærum, en í heildina var ég að pútta mjög vel. Ég var með 26 pútt en missti nokkrar flatir og var því að bjarga mér ágætlega. Ég stefni á að þarf að halda mér í kringum parið og þá er ég í ágætum málum. Ég hef ekki oft spilað hérna, held ég hafi leikið á einu unglingamóti og í fyrra á Íslandsmótinu í holukeppni. Ég er því alltaf að læra betur á völlinn,“ sagði Ólafía Þórunn Kristinsdóttir.

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir slær hér á 10 teig Myndsethgolfis

„Veðrið var ekki erfitt, það var smá rigning sem var ekkert að trufla mig. Ég sló illa á fyrri 9 holunum og var ekki sátt við fyrstu holurnar en ég náði að laga þetta á seinni hlutanum. Þar fékk ég þrjá fugla á seinni níu. Það var ekki gott að fá skolla á 2., og 3. og 15. Ég var ekki að nýta mér par 5 holurnar sem ég geri nú oftast. Það var gaman að spila í dag og mér finnst nýju brautirnar á Jaðarsvelli skemmtilegar og þessi völlur hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér,“ sagði Valdís Þóra Jónsdóttir.

Valdís Þóra slær hér á 10 teig á Jaðarsvelli í dag Myndsethgolfis

„Þetta var allt saman frekar einfalt og jafnvel leiðinlegt golf hjá mér. Ég er samt sátt, ég byrjaði mjög vel og hefði léttilega getað verið þrjá undir eftir fyrstu þrjár holurnar. Púttin voru ekki að detta, var að bjarga pari með góðum vippum og missa fuglana þegar þeir voru í færi. Það var ekkert að gerast í raun og veru. Aðstæðurnar voru ekki erfiðar, það var blautt og maður hefur spilað í slíku veðri. Það er góð stemmning að koma til Akureyrar, sérstaklega að spila á Íslandsmótinu. Þeir eru búnir að gera þetta mjög vel og það er gott að vera hérna,“ sagði Guðrún Brá Björgvinsdóttir.

Guðrún Brá slær hér úr glompu á 9 braut í dag á Jaðarsvelli Myndsethgolfis

Staða efstu kylfinga í kvennaflokki eftir 1. keppnisdag á Íslandsmótinu í golfi 2016:

1. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR 70 högg -1
2. Valdís Þóra Jónsdóttir, GL 71 högg
3. Guðrún Brá Björgvinsdóttir, 72 högg +1
4. Gunnhildur Kristjánsdóttir, GK 74 högg +3
5.-6. Anna Sólveig Snorradóttir, GK 75 högg +4
5.-6. Berglind Björnsdóttir, GR 75 högg +4
7.-8. Helga Kristín Einarsdóttir, GK 76 högg +5
7.-8. Heiða Guðnadóttir, GM 76 högg +5

Björgvin Sigurbergsson sló fyrsta höggið á Íslandsmótinu en hann varð Íslandsmeistari síðast þegar mótið fór fram á Jaðarsvelli

 

Rástímar á öðrum keppnisdegi mótsins, athugið að búið er að breyta þeim lítilsháttar frá upphaflegu útgáfunni:

Exit mobile version