Site icon Golfsamband Íslands

Birgir Leifur endaði í 12. sæti í Frakklandi – upp um 16 sæti á stigalistanum

Birgir Leifur Hafþórsson. Mynd/seth@golf.is

Birgir Leifur Hafþórsson, sjöfaldur Íslandsmeistari úr GKG, lék á pari vallar á lokakeppnisdeginum á Cordon Golf Open mótinu sem lauk í gær í Frakklandi. Birgir endaði í 12. sæti á mótinu eftir að hafa leikið á 70-70-65-70.  Spánverjinn Alvaro Velasco sigraði á -12 samtals. Birgir fékk rúmlega 420.000 kr. í verðlaunafé en sigurvegarinn fékk 4,1 milljón kr. í sinn hlut. Þetta var sjöunda mótið hjá Birgi á þessu tímabili á Áskorendamótaröðinni. Hann hefur komist í gegnum niðurskurðinn á fjórum þeirra og fengið samtals um 1,5 milljón kr. í verðlaunafé á þessum fjórum mótum.

Mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu, sem er næst sterkasta atvinnumótaröð í karlaflokki í Evrópu. Næsta mót fer fram í þessari viku en það fer fram á Írlandi. Birgir Leifur er fjórði á biðlista fyrir það mót og ætti að vera nokkuð öruggur um að komast inn á það mót.

Staðan á mótinu: 

Það er að miklu að keppa fyrir Birgi að laga stöðu sína á stigalistanum enn frekar fyrir keppnistörnina á Áskorendamótaröðinni í haust. Alls eru átta mót eftir en á lokaspretti keppnistímabilsins komast aðeins þeir allra stigahæstu inn á mótin. Birgir var í 108. sæti stigalistans á Áskorendamótaröðinni fyrir mótið í Frakklandi en hann er í 92. sæti núna og fór því upp um 16 sæti. .Birgir hefur aldrei verið með lægra meðalskor á Áskorendamótaröðinni eða 70,32 högg.

Exit mobile version