Birgir Leifur Hafþórsson fór upp um 14. sæti fyrir lokahringinn á SSE Scottish Hydro Challenge sem fram fer í Skotlandi.
Mótið er hluti af Áskorendamótaröð Evrópu sem er næst sterkasta atvinnumótaröð Evrópu. Birgir Leifur, sem keppir fyrir GKG, er á -2 samtals eftir að hafa leikið fyrstu þrjá hringina á 73-69-69 en par vallar er 71 högg. Hann er í 35.-38. sæti en efsti kylfingurinn í mótinu er á -12.
Með árangri sínum á undanförnum mánuðum hefur Birgir Leifur farið hratt upp stigalistann á Áskorendamótaröðinni.
Hann er í 46. sæti eftir 5 mót á þessu tímabili sem er besta staða hans á þessum lista frá upphafi.
Í lok tímabilsins komast 15 efstu beint inn á Evrópumótaröðina og 45 efstu öðlast takmarkaðann keppnisrétt og fara beint inn á þriðja stig úrtökumótsins sem er jafnframt lokaúrtökumótið.