Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, keppti á mótaröð þeirra bestu í Evrópu og endaðin hann í 79. sæti.
Birgir Leifur lék vel á öðrum keppnisdeginum eða 66 höggum en hann endaði mótið á -1 samtals (73-66-73). Birgir komst í gegnum fyrri niðurskurðinn að loknum 36 holum en hann komst ekki í gegnum niðurskurðinn fyrir lokakeppnisdaginn og lék hann því þrjá hringi af alls fjórum. Fyrir árangurinn fékk Birgir Leifur um 3000 Evrur. Tom Lewsi frá Englandi sigraði á -22 og fékk hann um 333.000 Evrur í verðlaunafé.
Mótið fór fram á Dom Pedro Victoria Golf Course.
Birgir dró sig úr keppni í byrjun september á móti á Evrópumótaröðinni í Danmörku vegna meiðsla í hálsi.
Sjöfaldi Íslandsmeistarinn hefur leikið á tíu mótum á Evrópumótaröðinni á þessu tímabili. Þar að auki hefur hann leikið á níu mótum á Áskorendamótaröð Evrópu, sem er næst sterkasta atvinnumótaröðin í Evrópu.
Alls hefur Birgir Leifur leikið á 70 mótum á Evrópumótaröðinni frá upphafi – og er hann langefstur í þeirri tölfræði hjá íslenskum atvinnukylfingum í karlaflokki.
Árin 2009 og 2007 lék Birgir á 17 og 18 mótum á Evrópumótaröðinni – en á þeim tíma var hann með fullan keppnisrétt á mótaröðinni.