/

Deildu:

"Íslandsmótið í höggleik. Golf, sumar 2014, GKG, Leirdalsvöllur. Birgir Leifur Hafþórsson Ólafía Þórunn Kristinsdóttir Íslandsmót"
Auglýsing

Birgir Leifur Hafþórsson úr GKG er Íslandsmeistari í höggleik karla eftir sigur í Leirdalnum í dag. Birgir Leifur lék á samanlagt á tíu höggum undir pari, og jafnaði þar með mótsmet, en Ólafur Björn Loftsson úr Nesklúbbnum og Þórður Rafn Gissurarson lentu í öðru og þriðja sæti á þremur höggum undir pari vallarsins. Axel Bóasson, sem lék á sjö höggum undir pari vallarins í gær, og jafnaði þar með vallarmetið, hafnaði í sjöunda sæti en hann lék á 6 höggum yfir pari í dag. Þetta er í sjötta sinn sem Birgir Leifur fagnar Íslandsmeistaratitlinum en hann jafnaði þar með árangur Úlfars Jónssonar og Björgvins Þorsteinssonar sem fögnuðu Íslandsmeistaratitlinum alls sex sinnum.

Sigur Birgis Leifs var aldrei í hættu en hann leiddi með sjö höggum fyrir síðasta daginn í Leirdalnum. Hann byrjaði daginn þó ekki vel og fékk fjóra skramba á fyrstu tíu holunum. Seinni níu holurnar gengu þó betur og fékk hann fugl á 12., 13. og 14. holu.“Þetta var gaman en það var smá stress í dag. Mér fannst hálf óþægilegt að vera með þessa forystu og vissi ekki alveg hvernig ég átti að spila. Ég ákvað samt að vera grimmur og svo gekk það ekki alveg upp og ég var í smá vandræðum í byrjun en ég hélt þolinmæðinni og þá kom þetta,“ segir Birgir Leifur.

Eftir þriðja daginn sagði Birgir Leifur að hann myndi undirbúa sig á sama hátt fyrir lokadaginn og aðra daga – jafnvel skipta á tveimur kúkableium eða svo. Fjölskylda Birgis studdi vel við bakið á honum, konan og börnin þrjú. „Undirbúningurinn var bara sá sami og venjulega. Ég tók meira að segja eina bleiu í morgun,“ segir Birgir Leifur og hlær. „Við grilluðum góðan mat í gær og fengum góða vini í heimsókn. Það var samt fiðringur í  maganum og tilhlökkun. Tvö síðustu landsmót hafa verið ótrúlega flott og vel heppnuð.“
Sem fyrr segir er þetta í sjötta sinn sem Birgir Leifur fagnar titlinum en hann segist hvergi nærri vera hættur . „Eigum við ekki að bæta metið?“ segir Birgir Leifur og hlær. „Ég veit náttúrlega ekki hvað ég verð lengi í þessu en hungrið er allavega enn til staðar.“

Birgir Leifur mun klára sveitakeppnina með Golfklúbbi Kópavogs og Garðabæjar en svo liggur leiðin út. Hann mun spila á tveimur upphitunarmótum í Skandinavíu og svo tekur úrtökumót fyrir evrópsku mótaröðina við.  „Ég er í fínu standi. Það var margt gott hjá mér en það er líka margt sem ég get lagað,“ segir Birgir Leifur sem hefur verið að glíma við meiðsli í baki. „Ég þarf náttúrlega að sinna bakinu mjög vel en það hefur verið að halda í svona löngu móti og eftir svona langt labb sem er hið besta mál.“

Deildu:

Auglýsing
Auglýsing

Fylgstu með GSÍ á samfélagsmiðlunum

Hlökkum til að sjá þig á samfélagsmiðlum GSÍ