Birgir Leifur Hafþórsson kylfingur úr GKG og Norma Dögg Róbertsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2014. Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Reiðhöll Spretts 8. janúar. Fengu þauað launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 150 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.
Birgir Leifur Hafþórsson kylfingur úr GKG og Norma Dögg Róbertsdóttir fimleikakona úr Gerplu voru kjörin íþróttakarl og íþróttakona Kópavogs fyrir árið 2014.
Kjörinu var lýst á íþróttahátíð Kópavogs í Reiðhöll Spretts 8. janúar. Fengu þau að launum farandbikar og eignarbikar jafnframt því sem Ármann Kr. Ólafsson bæjarstjóri Kópavogs afhenti þeim hvoru um sig 150 þúsund króna ávísun í viðurkenningarskyni frá Kópavogsbæ.
Birgir Leifur og Norma Dögg voru valin úr hópi 39 íþróttamanna sem fengu viðurkenningu íþróttaráðs eftir tilnefningar frá íþróttafélögunum í bænum. Meistaraflokkur HK í blaki var kjörinn flokkur ársins 2014 karla en liðið varð Íslands-, bikar- og deildarmeistari í blaki á árinu.
Birgir Leifur Hafþórsson
Birgir Leifur varð Íslandsmeistari í höggleik á árinu 2014 og það í sjötta sinn á ferlinum. Birgir Leifur hefur mörg undanfarin ár verið fremsti kylfingur landsins og var fyrsti Íslendingurinn til að tryggja sér þátttökurétt á Evrópumótaröðinni árið 2007. Á erlendum vettvangi náði Birgir Leifur best 5. sæti á Nordic League mótaröðinni í Svíþjóð í september. Stærsta afrekið er þó að komast alla leið á lokastig úrtökumótanna fyrir evrópsku mótaröðina í golfi (European Tour). Árangur hans í því móti gaf honum þátttökurétt á Áskorendamótaröð Evrópu á næsta tímabili (Challenge Tour). Birgir Leifur er frábær fyrirmynd annarra kylfinga, reglusamur, vinnusamur og ávallt jákvæður. Hann er frábær liðsmaður, hvetjandi og drífandi.
Norma Dögg Róbertsdóttir
Norma Dögg er Íslandsmeistari í fjölþraut í áhaldafimleikum kvenna árið 2014. Hún varð einnig Íslandsmeistari á stökki en í þeirri grein hefur Norma Dögg verið í algjörum sérflokki. Hún vann til tvennra verðlauna á Norðurlandamótinu á árinu, silfur í stökki og bronsverðlaun í liðakeppni. Norma hefur um nokkurt skeið verið brautryðjandi í Norður Evrópu hvað varðar erfiðar æfingar í stökki og á gólfi og gerir í dag erfiðleikaæfingar á mjög háu stigi. Í keppni við bestu fimleikakonur heims náði hún frábærum árangri. Hún varð í 11. sæti í stökki á EM og í 18. sæti í stökki á Heimsmeistaramótinu nú í október. Þetta er besti árangur íslenskrar fimleikastúlku í áhaldafimleikum hingað til.