Golfsamband Íslands

Birgir Leifur úr leik á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar

Birgir Leifur Hafþórsson.

Birgir Leifur Hafþórsson, atvinnukylfingur úr GKG, er úr leik á lokaúrtökumóti Evrópumótaraðarinnar. Keppt er á Lumine golfsvæðinu við Tarragona rétt utan við Barcelona á Spáni.

Sjöfaldi Íslandsmeistarinn lék fyrstu fjóra hringian á -4 samtals (67-69-76-70). Birgir endaði í 84. sæti en 25 efstu í mótslok fá fullan keppnisrétt á Evrópumótaröðinni.

Birgir Leifur var aðeins tveimur höggum frá því að komast í gegnum niðurskurðinn eftir fjórða hringinn. En 77 efstu kylfingarnir leika tvo hringi til viðbótar. Það hefði breytt miklu fyrir Birgi að komast í gegnum niðurskurðin.  Þannig hefði hann tryggt sér keppnisrétt á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili í styrleikaflokki 9 og einnig hefði hann verið með takmarkaðan rétt á Evrópumótaröðinni í styrkleikaflokki 22.

Það er að miklu að keppa á þessu móti. Alls fá 25 efstu í mótslok keppnisrétt á Evrópumótaröðinni þar sem þeir verða í styrkleikaflokki 17 á næsta tímabili á Evrópumótaröðinni og í styrkleikaflokki 5 á Áskorendamótaröðinni.

Þeir kylfingar sem komast í gegnum niðurskurðinn að loknum fjórða hringnum og eru fyrir neðan 25. sætið komast í styrkleikaflokk 22 á Evrópumótaröðinni – og verða í styrkleikaflokki 9 á Áskorendamótaröðinni.

Þeir kylfingar sem komast ekki í gegnum niðurskurðinn komast samt sem áður í styrkleikaflokk 15 á Áskorendamótaröðinni á næsta tímabili. Birgir fær því eitthvað af verkefnum á næsta tímabili á næsta ári á næst sterkustu atvinnumótaröð Evrópu.

Alls verða leiknir sex hringir og alls hafa 156 keppendur tryggt sig inn á lokaúrtökumótið og koma þeir frá 26 löndum.

Birgir Leifur hefur leik kl. 9.35 að íslenskum tíma laugardaginn 10. nóvember.

Birgir Leifur er einn reynslumesti kylfingurinn á lokaúrtökumótinu og fáir eiga sér eins langa sögu á þessu svið. Sjöfaldi Íslandsmeistarinn er að taka þátt í 20. skipti á úrtökumótinu og árangur hans er áhugaverður svo ekki sé meira sagt. Alls hefur Birgir Leifur komist inn á lokaúrtökumótið í 14 skipti fram til þessa.

Aðeins einu sinni hefur Birgir Leifur fallið úr keppni á 1. stiginu (2016), og í fimm skipti hefur hann fallið úr leik á 2. stig úrtökumótsins (2002, 2003, 2011, 2012 og 2013).

Margir þekktir keppendur eru á lokaúrtökumótinu – líkt og ávallt á þessu móti. Má þar nefna Matteo Manassero frá Ítalíu. Þrátt fyrir að vera aðeins 25 ára gamall hefur Manassero sigrað fjórum sinnum á Evrópumótaröðinni. Hann sigraði síðast árið 2013 á BMW PGA Championship. Hann er yngsti sigurvegarinn á Evrópumótaröðinni frá upphafi. Manassero var 17 ára og 188 daga gamall þegar hann sigraði árið 2010. Þetta er í fyrsta sinn sem Manassero fer á lokaúrtökumótið. Alls eru 19 kylfingar á lokaúrtökumótinu sem hafa fagnað sigri eða sigrum á Evrópumótaröðinni.

Oliver Wilson frá Englandi er einnig á meðal keppenda. Hann er eini leikmaðurinn á mótinu sem hefur leikið með Ryderliði Evrópu. Wilson sigraði á Alfred Dunhill Links árið 2014 og á þessu ári hefur hann sigrað tvívegis á mótum á Áskorendamótaröðinni.

 

Exit mobile version